Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins og formaður Verkalýðsfélags Akraness, er mjög ósáttur við stýrivaxtahækkun peningastefnunefndar Seðlabankans í morgun. Stýrivextir hækka um 1 prósent og eru þeir nú komnir í 3,75 prósent.
„Þessi ákvörðun Seðlabankans er í mínum huga ekkert annað en stríðsyfirlýsing við launafólk, neytendur, heimili og fyrirtæki landsins. Það er alveg ljóst að þetta getur vart annað en kallað á hörð viðbrögð af hálfu verkalýðshreyfingarinnar og mun klárlega endurspegla kröfugerð þeirra sem nú er verið að ganga frá vítt og breitt um landið,“ segir Vilhjálmur í pistli á Facebook-síðu sinni.
Vilhjálmur bendir á að fyrirtæki á hinum almenna markaði skuldi fimm þúsund milljarða, samkvæmt Hagstofu Íslands. Stýrivaxtahækkun upp á 1 prósent þýði að fjármagnskostnaður þeirra hækkar um 50 milljarða á ársgrundvelli. Það sé nánast sama upphæð og kostar að ganga frá kjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði.
„Það er alveg ljóst að aukinn fjármagnskostnaður fyrirtækja mun fara beint út í verðlag og þjónustu sem að á endanum endar á herðum neytenda. Það væri gott ef seðlabankastjóri gæti útskýrt það á mannamáli hvernig kjarasamningar á hinum almenna vinnumarkaði séu ætíð að ógna stöðugleika í íslensku samfélagi þegar bara þessi stýrivaxtahækkun getur leitt til þess að það kosti fyrirtækin jafnmikið og að ganga frá kjarasamningi á hinum almenna vinnumarkaði,“ segir Vilhjálmur sem veltir fyrir sér hvort Seðlabankinn hefði getað farið aðra leið.
„Hví í ósköpunum beitir seðlabankinn ekki öðrum stjórntækjum sem hann hefur til umráða til að slá á húsnæðismarkaðinn. Það er með ólíkindum að hann skuli enn og aftur dekra við fjármálaöflin og það hefur verið grátbroslegt að sjá í fréttum að undanförnu að aðalálitsgjafarnir um stýrivaxtahækkunina hafa verið fulltrúar úr bankakerfinu þar sem þeir hafa verið að spá umtalsverðri hækkun á stýrivöxtum og nú hefur þeim orðið að ósk sinni,“ segir hann.
Hann segir að fjármálakerfið hafi svo sannarlega hag af því að vextir fari upp, enda tekist að tala stýrivaxtahækkunina upp í hæstu rjáfur með framferði sínu á liðnum dögum.
„Það er ekki að sjá annað en að framferði stórfyrirtækja sem hafa varpað öllum sínum kostnaðarhækkunum viðstöðulaust yfir á neytendur til að geta viðhaldið arðsemisgræðgi sinni áfram og svo þessar gríðarlegu vaxtahækkanir muni leiða til mikilla átaka á íslenskum vinnumarkaði,“ segir Vilhjálmur sem hefur áhyggjur af íslenskum heimilum.
„Heimili sem er með 50 milljóna húsnæðislán á breytilegum vöxtum getur átt von á að greiðslubyrðin aukist um 41 þúsund krónur á mánuði eða tæpar 500 þúsund krónur á ári. Heldur Seðlabankinn að slík aukning á greiðslubyrði auki líkurnar á að hægt verði að ganga frá kjarasamningum, nei fjandakornið ekki!“