Ásta Kristín Sigurjónsdóttir hefur verið framkvæmdastjóri Íslenska ferðaklasans frá byrjun árs 2016 en á síðasta fimmtudag voru fimm ár frá stofnun klasans.

Hvernig finnst þér best að verja frístundum?

Ég er náttúrunörd og einstaklega vel gift svo mínar frístundir snúast að miklu leyti um góða göngutúra og fjallgöngur, hlaup um helgar og gæðastundir með fjölskyldu og vinum. Á veturna eru skíði með fjölskyldunni það besta. Ég er líka moldrík af einstökum vinkonu- og frænkuhópum sem er alltaf jafn endurnærandi og gott að hitta.

Nærðu að halda jafnvægi milli vinnu og frístunda?

Stundum og mun oftar og betur en áður. Jafnvægi er list sem þarf að stunda og aga sig í. Það er auðvelt að gleyma sér og keyra sig áfram í ómissandi gírinn, brjálað að gera og allt í botni. Það þarf að standa sig á svo mörgum vígstöðvum í einu að kröfurnar sem við setjum á okkur sjálf verða svo óraunhæfar að óhófleg streita fylgir oft í kjölfarið. Ég setti mér skýr markmið fyrir nokkrum árum um að slaka á dugnaðarofurkonukröfunum sem ég ein hafði sett og enginn annar ætlaðist til af mér.

Ég var meira segja minnt á það af stjórnarformanni að ég ynni ekki við að bjarga mannslífum, hvort ég vildi nú ekki aðeins slaka á. Það var ágætis áminning sem ég nota grimmt á þá sem mér finnst ekki veita af slíku, við erum ekkert að fara að bjarga þessum manni. Ofan í þetta spilar að ég hef mikinn metnað og geri kröfur á árangur svo hér þarf að fara saman heilmikil jafnvægislist.

Hvaða ávinningur næst með klasastarfi í ferðaþjónustu?

Það eru ákveðnir töfrar sem leysast úr læðingi í klasastarfi. Hefðbundið samstarf felur venjulega í sér ákveðna hagsmunagæslu og baráttu á meðan klasastarf gengur lengra. Öll virðiskeðjan vinnur að sameiginlegum markmiðum sem fela í sér að auka samkeppnishæfni og verðmætasköpun allra í keðjunni með langtímaþróun og uppbyggingu ferðaþjónustunnar í huga.

Aðferðirnar fela í sér hnitmiðuð verkefni sem eiga sér upphaf og endi. Hvort sem það er nýsköpun innan starfandi fyrirtækja, frumkvöðlastuðningur eða sérstöðu- og samkeppnisgreining fyrirtækja er það alltaf leiðarstefið að 1+1 séu að minnsta kosti 3. Það gerist þegar ólíkir aðilar setjast saman með það markmið að ná árangri, að saman séum við sterkari og að samtakamátturinn nái hærri hljómi en hver og einn í sínu horni.

„Samstaða og samtakamáttur öflugra aðila í virðiskeðju ferðaþjónustunnar er það sem mun koma okkur sterkum í gegnum þennan tímabundna skafl.“

Stofnaðilar að Íslenska ferðaklasanum sýndu mikla framsýni og dug við formlega stofnun hans 12. mars 2015. Þá var ferðaþjónustan á ævintýralegum stað í vaxtarkúrfunni og verkefnin ærin. Klasinn lagði grunn að mörgum góðum verkefnum og umræðuhópum hvað varðaði málefni líðandi stundar fyrir fimm árum en þau verkefni fóru að stórum hluta inn í Stjórnstöð ferðamála sem sett var á laggirnar sem fimm ára átaksverkefni stjórnvalda, greinarinnar og sveitarfélaga. Þetta voru meðal annars verkefni sem vörðuðu tillögur að stýringu, gagnaöflun, gæði og sérstöðu svæða svo eitthvað sé nefnt.

Á fimm ára afmæli klasans, sem er einmitt þann 12. mars, er einstaklega vel við hæfi að minna á þann árangur sem náðst hefur, bretta upp ermar fyrir komandi áskoranir og muna að samstaða og samtakamáttur öflugra aðila í virðiskeðju ferðaþjónustunnar er það sem mun koma okkur sterkum í gegnum þennan tímabundna skafl.

Hefur breytt rekstrarumhverfi í ferðaþjónustu haft áhrif á starfið?

Klárlega, samt sem áður hafa verið einhvers konar blikur á lofti í íslenskri ferðaþjónustu þau tæpu fimm ár sem ég hef verið í þessu starfi. Óstöðugt gengi, hærri skattar, aukinn kostnaður fyrirtækja og mikil alþjóðleg samkeppni um ferðamanninn gerir ríkar kröfur á alla stjórnendur sem reka ferðaþjónustufyrirtæki.

„Við þurfum stundum að minna okkur á að samkeppnin á sér ekki stað milli fyrirtækja á Íslandi heldur erum við í samkeppni við aðra spennandi áfangastaði um allan heim.“

Það er einmitt þar sem klasastarfið kemur inn og eflir stjórnendur, gefur þeim tækifæri til að spegla sig í rekstri hvers annars, yfirfæra þekkingu og læra af mistökum. Einnig gefur þetta fyrirtækjum kost á að eiga aukin viðskipti sín á milli, nýta virðiskeðju hvert annars, spara þannig tíma og peninga með auknu hagræði og stærðarhagkvæmni.

Við þurfum stundum að minna okkur á að samkeppnin á sér ekki stað milli fyrirtækja á Íslandi heldur erum við í samkeppni við aðra spennandi áfangastaði um allan heim. Hér á ég auðvitað ekki við viðkvæmar rekstrar- eða fjárhagsupplýsingar fyrirtækja sem varða við samkeppnislög heldur almenna heilbrigða samvinnu í samkeppni sem er grundvöllur allra klasa.

Hvernig hefur starfinu miðað og hvaða tækifæri sérðu fram undan?

Starfinu hefur miðað vel og það er stöðug þróun í gangi í okkar stærstu atvinnugrein. Það eru enn á ný áskoranir sem bíða en eins og áður sagði erum við heldur betur tilbúin að láta verkin tala. Þegar mesta fárið er liðið hjá vegna kórónaveirunnar þurfum við að vera tilbúin með skothelt meistaraplan. Það þarf að fara í skapandi aðgerðir þar sem allir þurfa að ganga í takt og takast á við verkefnið. Öflug markaðssókn á okkar góðu markaðssvæði, gæða þjónusta og landslið ferðaþjónustufyrirtækja sem stunda nýsköpun og vöruþróun eru framtíðin og okkar helsta tækifæri.