Ríflega eins og hálfs milljarðs króna tap var á rekstri TM á fyrstu þremur mánuðum ársins, samkvæmt fjórðungsuppgjöri sem samstæðan birti eftir lokun markaða síðdegis í dag. Forstjórinn segir tapið að mestu mega rekja til áhrifa heimsfaraldurs kórónaveirunnar.

Alls hagnaðist TM-samstæðan um 789 milljónir króna á fyrsta ársfjórðungi en inni í þeirri fjárhæð er tekjufært undirverð vegna kaupa á Lykli upp á tæplega 2,3 milljarða króna.

Afkoma vátrygginga félagsins var neikvæð um 82 milljónir króna á tímabilinu og var samsett hlutfall 103,9 prósent. Þá var ávöxtun fjárfestingaeigna neikvæð um 0,5 prósent og afkoma fjármögnunar sömuleiðis neikvæð um 430 milljónir króna.

Sigurður Viðarsson, forstjóri TM, segir í afkomutilkynningu að uppgjörið sé mjög litað af þeirri röskun sem faraldurinn hefur haft í för með sér á rekstur margra fyrirtækja, sér í lagi þeirra sem tengjast ferðaþjónustu.

Framlagi í afskriftarreikning vegna væntra tapaðra viðskiptakrafna og útlána hafi verið aukið hjá TM og af sömu ástæðu sé virðisrýrnun útlána hjá Lykli metin um 610 milljónir króna á fjórðungnum.

Tap hafi verið af fjárfestingum á tímabilinu sem megi fyrst og fremst rekja til mikilla lækkana á innlendum hlutabréfamarkaði, auk þess sem gerðar hafi verið ákveðnar varúðarfærslur á óskráðum eignum.

„Þrátt fyrir þau áhrif sem hér hefur verið lýst er samstæðan vel í stakk búin að takast á við slíka ágjöf,“ segir forstjórinn.

„Gert er ráð fyrir að áhrif COVID-19 faraldursins séu að mestu leyti komin fram í uppgjöri fyrsta fjórðungs og að samstæðan muni skila hagnaði á næstu fjórðungum,“ bætir hann við.

Einskiptiskostnaður vegna kaupa TM á Lykli nam 144 milljónum króna.
Ljósmynd/TM

TM hyggst ekki endurnýja rekstrarspá sína að sinni en í tilkynningunni er þó tekið fram að horfur samstæðunnar séu almennt góðar. Tryggingarekstur hafi batnað mikið það sem af er öðrum ársfjórðungi og gert sé ráð fyrir um 97 prósenta samsettu hlutfalli til næstu tólf mánaða. Þá hafi fjárfestingatekjur einnig verið mjög góðar á fjórðungnum og í hefðbundnu árferði megi gera ráð fyrir um sex prósenta ávöxtun á eignasafninu á ársgrundvelli.

Auk þess hafi hefðbundinn rekstur Lykils gengið vel á fyrsta ársfjórðungi en virðisrýrnun og einskiptiskostnaður vegna skipulagsbreytinga lita uppgjörið. Til næstu tólf mánaða er gert ráð fyrir að arðsemi Lykils verði komin yfir sjö prósent.

Þá tekur nýtt skipurit gildi hjá TM um mánaðamótin, eftir því sem fram kemur í tilkynningu félagsins. Mannauðs- og fræðslumál, markaðsmál, forvarnir og ytri samskipti fyrir alla samstæðuna verða sameinuð á nýju samskiptasviði sem Kjartan Vilhjálmsson mun stýra. Hann er framkvæmdastjóri einstaklingsráðgjafar og markaðsmála hjá félaginu.