Mikill mann­gangur var víðast hvar í verslunum ÁTVR fyrir helgi á höfuð­borgar­svæðinu. Lík­lega má rekja það til til­kynningar yfir­valda um sam­komu­bann sem tekur gildi á mánu­daginn næsta. Sig­rún Ósk Sigurðar­dóttir, að­stoðar­for­stjóri ÁTVR, segist í sam­tali við Frétta­blaðið hvetja fólk til að mæta í verslanir utan á­lags­tíma.

Eins og Frétta­blaðið greindi frá í gær myndaðist ör­tröð í ýmsum mat­vöru­verslunum eftir að til­kynning stjórn­valda fór í loftið. Sam­komu­bannið tekur ekki í gildi fyrr en að­fara­nótt mánu­­dags en bið­raðir voru byrjaðir að myndast í fjöl­mörgum mat­vöru­verslunum strax í há­degi í gær.

Víðir Reynis­son, yfir­lög­reglu­þjónn, sagði í gær­ að fólk væri hvatt til að halda á­fram sínu dag­lega lífi um helgina. „Við hvetjum bara fólk til þess að ganga hægt um gleðinnar dyr og skemmta sér vel um helgina, en að beita sömu skyn­semi og við höfum verið að gera undan­farið,“ segir Víðir að­spurður um hvernig fólk ætti að haga sér um helgina þar sem sam­komu­bannið tæki ekki gildi strax.

Svo virðist vera sem margir hafi tekið Víði á orðinu. Af­greiðslu­maður í verslun ÁTVR í Hafnar­firði sem Frétta­blaðið ræddi við í dag sagði á­standið í gær hafa verið „eins og fyrir Þjóð­há­tíð.“ Stöðugt flæði fólks hefði verið í búðina.

Sig­rún Ósk segist í sam­tali við blaðið ekki hafa ná­kvæmar tölur um fjölda gesta í dag og í gær í búðir ÁTVR en lík­lega hafi fjöldinn verið mikill.

„Ég hef heyrt það, að þetta hafi verið mikið,“ segir Sig­rún. „En við höfum lagt á­herslu á það að biðja við­skipta­vini okkar um að koma ekki allir í búðirnar á sama tíma. Föstu­dagar og laugar­dagar eru kannski ekki besti tíminn til að versla ef fólk vill forðast marg­menni.“

ÁTVR tekur því í sama streng og for­svars­menn annarra verslana, líkt og Krónunnar, sem hafa beðið fólk um að mæta helst ekki í búðir á á­lags­tímum, sem í til­viki mat­vöru­verslana eru á milli 16:00 og 19:00. Sam­göngu­bann tekur gildi hér á landi á mið­nætti á að­fara­nótt mánu­dags.