Fréttir af ógnargróða heildsölunnar Lyru vekja óneitanlega spurningar um það hvort viðskiptasiðferði lúti ekki einhverjum örlítið strangari lögmálum en venjulega á tímum heimsfaraldurs og neyðar.

Lögmálum sem ganga ekki alveg fram af venjulegu fólki og heilbrigðiskerfi heillar þjóðar.

Lögmálum sem misbjóða ekki þeim sem stóðu sólarhringsvaktir í framlínunni eða misstu allt sitt í efnahagsþrengingunum.

Á meðan þjóðir heims hírð­ust í tveggja ára samfelldri smitgát græddu eigendur heildsölu, sem selur vörur til efnagreiningar, sem sagt á tá og fingri. Mestmegnis með sölu til ríkisins án útboðs. Á grundvelli neyðarréttar í ljósi ástandsins. Vegna sölu á farsóttarvörum.

Hagnaður fyrirtækisins fjórfaldaðist í faraldrinum. Hvorki meira né minna. Það verða að teljast dágóðar heimtur hjá krúttlegu fjölskyldufyrirtæki.Svo mikil voru umsvif fyrirtækisins á tímum neyðarstigs að eigendur fyrirtækisins neyddust til að greiða sér 750 milljónir króna í arð.

Eitthvað segir manni að fleiri viðlíka fréttir verði sagðar á næstu vikum og mánuðum. Þegar pattaralegir ársreikningar kórónuveirukónganna taka að streyma inn til Skattsins.

Þau eru nefnilega til. Fyrirtækin og einstaklingarnir sem sjá tækifæri í neyðinni og geta ekki stillt sig um að maka krókinn á kostnað ríkis og skattgreiðenda. Undir innblásnum ræðum stjórnmálamanna um mikilvægi þess að allir leggi sitt af mörkum á erfiðum tímum. Í nafni samstöðunnar.

Kannski er ekkert við það að athuga. Rétt fyrirtæki á réttum stað með réttu vörurnar. Svona eins á öllum tímum þrenginga í gegnum tíðina.

Þetta er sem sagt höskuldarviðvörun. Ef þessar fréttir koma illa við ykkur þá mæli ég einfaldlega með vænum skammti af æðruleysisbæninni. Það er lítið sem við, venjulega fólkið, getum við þessu gert.

Nema bundið veika von við að þessi mál verði að minnsta kosti tekin til skoðunar. Þó ekki væri nema til að læra af þeim.