Þórarinn G. Pétursson greiddi atkvæði gegn tillögu seðlabankastjóra um að lækka vexti og vildi halda þeim óbreyttum. Aðrir nefndarmenn kusu með tillögunni.

Peningastefnunefnd Seðlabankans ákvað í lok júní að lækka vexti um 0,25 prósentustig. Í fundargerð nefndarinnar sem var birt á vef Seðlabankans rétt í þessu segir að nefndin hafi rætt þá möguleika að staldra við og halda vöxtum óbreyttum eða lækka vexti um 0,25 prósentur.

Í fundargerðinni segir að helstu rökin fyrir því að hafa óbreytta vexti væru þau að verðbólga og verðbólguvæntingar væru enn yfir markmiði og verðbólguálag á skuldabréfamarkaði virtist tekið að hækka á ný. Þá hefði gengi krónunnar lækkað að undanförnu og enn ætti eftir að ljúka gerð kjarasamninga opinberra starfsmanna. Einnig væri undirliggjandi þróttur innlendrar eftirspurnar meiri en gert hafði verið ráð fyrir. Því gæti verið rétt að staldra við og sjá skýrari merki um hjöðnun verðbólgu og verðbólguvæntinga áður en vextir yrðu lækkaðir frekar.

Helstu rökin fyrir því að lækka vexti voru þau að þótt þróun efnahagsmála hefði í meginatriðum verið í samræmi við það sem búist hefði verið við væru vísbendingar um að samdráttur í þjóðarbúskapnum gæti orðið meiri og varað lengur en talið var í maí. Verðbólguvæntingar höfðu lækkað milli funda nefndarinnar og taumhald peningastefnunnar því aukist á ný. Einnig var bent á að áfram væru horfur á að verðbólga myndi hjaðna í átt að markmiði á þessu ári. Rétt væri því að slaka frekar á taumhaldinu til að mæta efnahagssamdrættinum.

Lagði Már Guðmundsson seðlabankastjóri til að vextir bankans yrðu lækkaðir um 0,25 prósentur. Már, Rannveig Sigurðardóttir, Gylfi Zoëga og Katrín Ólafsdóttir greiddu atkvæði með tillögunni en Þórarinn G. Pétursson greiddi atkvæði gegn henni.