Elías Skúli Skúlason, stjórnarformaður og einn eigenda flugþjónustufyrirtækisins Airport Associates, hefur tekið sæti í stjórn hins nýstofnaða lággjaldaflugfélags Play. Hann segist í samtali við Markaðinn hafa sest í stjórnina fyrir hönd hóps fjárfesta sem koma að flugfélaginu en vill aðspurður ekki tjá sig frekar um málið.

Fyrir í stjórn Play sitja stofnendurnir Arnar Már Magnússon, forstjóri flugfélagsins, og Sveinn Ingi Steinþórsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs.

Elías Skúli, sem er jafnframt framkvæmdastjóri Express, umboðsaðila hraðsendingafyrirtækisins United Parcel Service á Íslandi, fer með 47,5 prósenta hlut í Rea, eiganda Airport Associates, en flugþjónustufyrirtækið þjónustaði meðal annars WOW air á Keflavíkurflugvelli á sínum tíma. Guðbjörg Astrid Skúladóttir á 47,5 prósenta hlut í Rea og Sigþór Kristinn Skúlason, framkvæmdastjóri Airport Associates, fimm prósenta hlut.

Stjórnendur og stofnendur Play vinna nú að því ásamt Íslenskum verðbréfum að ljúka fjármögnun flugfélagsins til lengri tíma og hafa viðræður staðið yfir að undanförnu við erlenda fjárfesta, samkvæmt heimildum Markaðarins.

Flugfélagið fékk um miðjan síðasta mánuð nýtt fjármagn inn í reksturinn til þess að borga starfsfólki sínu ógreidd laun, eftir því sem heimildir Markaðarins herma, en fram kom í fréttum í byrjun desember að laun vegna nóvembermánaðar hefðu ekki borist.