Barnaskóli Hjallastefnunnar í Öskuhlíð hefur verið rekinn með halla öll starfsárin. Tekjurnar eru að mestu framlag Reykjavíkurborgar sem er um 75 prósent af meðaltalskostnaði grunnskóla í landinu. Rekstur leikskóla Hjallastefnunnar á sama stað hefur hins vegar verið í jafnvægi enda fylgir honum meira fé frá borginni. Óvissa ríkir um áframhaldandi rekstur skólans vegna húsnæðisvanda. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu.

Ítrekað kallað eftir auknum framlögum

„Ég hef ítrekað á kjörtímabilinu lagt fram þá tillögu að jöfn opinber framlög fylgi öllum börnum í skólakerfinu, óháð rekstrarformi þeirra skóla sem þau sækja. Tillagan hefur því miður ekki hlotið náð fyrir augum meirihlutans,“ segir Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, í samtali við Fréttablaðið.

Hún segir að sjálfstætt starfandi leik- og grunnskólar, á borð við skóla Hjallastefnunnar, hafi auðgað skólaflóruna í Reykjavík og gjarnan verið leiðandi í framþróun skólastarfs. Þeir bjóði foreldrum aukið frelsi og val um menntun barna sinna.

Skert framlög frá Reykjavíkurborg

„Í dag þiggja skólarnir skert framlög frá Reykjavíkurborg með þeim afleiðingum að innheimta þarf skólagjöld af foreldrum. Ekki eiga allir foreldrar þess kost að greiða slík gjöld. Með jöfnum opinberum framlögum mætti afnema skólagjöldin og tryggja öllum börnum jöfn tækifæri að sækja þessa skóla, óháð efnahag foreldra. Það þykir mér mikilvægt réttlætismál enda jöfn tækifæri eitt stærsta velferðarmálið.

Því má ekki heldur gleyma að sjálfstætt starfandi skólar hafa svarað eftirspurn sem borgin hefur ekki geta mætt. Hér mætti ekki síst nefna leikskólaþjónustu en í dag eru um 1.200 reykvísk börn á sjálfstætt starfandi leikskólum. Ef þessara leikskóla nyti ekki við væru ekki hundruð barna á biðlistum eftir leikskólaplássi í Reykjavík heldur um tvö þúsund. Einkaframtakið hefur svarað eftirspurn, stuðlað að framþróun og fjölgað valkostum í Reykjavík. Það er óskiljanlegt í mínum huga að borgin styðji ekki betur við þetta frábæra framtak,“ segir hún

„Því má ekki heldur gleyma að sjálfstætt starfandi skólar hafa svarað eftirspurn sem borgin hefur ekki geta mætt“

Missir húsnæðið í Öskjuhlið

Í frétt Morgunblaðsins kom fram að Hjallastefnan muni missa húsnæði sitt við Nauthólsveg 87 sumarið 2022 en þar hafi verið til húsa bæði leikskólinn Askja og Barnaskóli Hjallastefnunnar í Reykjavík. Næsta skólaár sé því síðasta árið sem Hjallastefnan hafi tryggt húsnæði fyrir skóla í Öskjuhlíð. Það hafi ávallt legið fyrir að skólarnir yrðu að víkja af lóðinni þegar Háskólinn í Reykjavík þyrfti á henni að halda og undanfarin ár hafa því verið ár skammtímaráðstafana.

Hjallastefnan fékk lóðarvilyrði til nýbyggingar í Öskjuhlíðinni en stjórn Hjallastefnunnar segir að félagið hafi hvorki fjárhagslegar forsendur né tíma til að byggja nýtt skólahúsnæði á lóðinni sem myndi nýtast að ári liðnu. Uppbygging yrði kostnaðarsöm vegna aðstæðna og landhalla, og ekki yrði unnt að nýta núverandi byggingar.