Samneyslan jókst um 1,6 prósent og hafði mun minni áhrif á hagvöxtinn en einkaneyslan og fjármunamyndun.

Útflutningur jókst um 20,6 prósent milli ára og innflutningur um 19,7 prósent. Utanríkisverslun hafði hins vegar engin heildaráhrif á hagvöxt að mati Hagstofunnar.

Ljóst er hins vegar að ekki stefnir í viðlíka hagvöxt á þessu ári. Hagvöxtur dróst saman eftir því sem leið á árið, var 8,2 prósent á fyrsta ársfjórðungi en 3,1 prósent á þeim fjórða. Hratt dró úr vextinum í lok ársins, en vöxturinn á öðrum og þriðja fjórðungi var 7,2 prósent og 7,5 prósent.

Í Hagsjá Landsbankans kemur fram að hægja tók á kaupmáttaraukningu á árinu og á síðari hluta ársins át mikil verðbólga upp kaupmátt. Reiknað er með að viðvarandi verðbólga muni hafa neikvæð áhrif á einkaneyslu, þegar fram líða stundir, en hún hefur nú aukist átta fjórðunga í röð.