Kortavelta innanlands bendir til þess að Íslendingar hafi að einhverju leyti bætt upp brotthvarf erlendra ferðamanna með aukinni einkaneyslu. Þetta má lesa út úr tölum um greiðslumiðlun sem Seðlabanki Íslands birti í gær.

Eins og gera mátti ráð fyrir hefur velta erlendra korta hrapað það sem af er ári miðað við sama tíma í fyrra. Á fyrstu sjö mánuðum ársins 2019 var heildarvelta erlendra greiðslukorta 138,7 milljarðar króna hér á landi. Það sem af er árinu 2020 er kortaveltan hins vegar aðeins 47,5 milljarðar króna. Mismunurinn er 91,5 milljarðar króna og munar svo sannarlega um minna inn í íslenskt hagkerfi. Rétt er að geta þess að tölurnar eru ekki leiðréttar fyrir verðbólgu en á móti kemur að verðbólga hefur verið óveruleg.

Ljósið í myrkrinu þegar tölurnar eru skoðaðar er það að einkaneysla Íslendinga innanlands hefur ekki beðið skipbrot. Það er eitthvað sem allt eins hefði getað gerst enda var mörgum stöðum þar sem einkaneysla landans fer fram, meðal annars veitingastöðum, börum og hár- og snyrtistofum, lokað á meðan fyrsta bylgja kórónaveiru­faraldursins gekk yfir. Það var því ekki sjálfgefið að einkaneysla Íslendinga myndi taka svo vel við sér að hún bætti að megninu upp þessa erfiðu mánuði.

Á sama tímabili hefur kortavelta Íslendinga innanlands nefnilega nánast staðið í stað en talsverðar sveiflur hafa verið milli mánaða, eins og áður kemur fram.

Þannig eyddu Íslendingar ellefu milljörðum króna meira innanlands í júlí síðastliðnum en í júlí í fyrra en mars og apríl voru afar þungir. Niðurstaðan samkvæmt tölum Seðlabankans er því sú að velta Íslendinga fyrstu sjö mánuði ársins í ár var um 504 milljarðar króna en árið 2019 var veltan 501 milljarður króna á sama tímabili.

Samandregið þýðir það að heildarvelta innlendra og erlendra greiðslukorta á Íslandi hefur numið um 551 milljarði króna það sem af er árinu 2020 en á sama tímabili í fyrra hljóðaði sú tala upp á 640 milljarða króna.

„Ég get ekki sagt að þessar tölur komi okkur á óvart. Þær staðfesta í raun það sem við vissum og höfum talað um frá upphafi faraldursins, að ferðaþjónustan hefur fengið þungt högg,“ segir Vilborg Helga Júlíusdóttir, hagfræðingur Samtaka ferðaþjónustunnar.

Vilborg Helga Júlíusdóttir, hagfræðingur SAF

Ferðagleði og einkaneysla Íslendinga innanlands hafi vissulega bjargað mörgum en ekki megi gleyma því að neysluhegðun Íslendinga er önnur en erlendra ferðamanna. „Þar má til dæmis benda á hótelin á höfuðborgarsvæðinu. Uppistaðan af viðskiptavinum þeirra eru erlendir ferðamenn,“ segir Vilborg Helga.