Liðlega þrjátíu stærstu einkafjárfestarnir í hluthafahópi Icelandair Group í dag fjárfestu fyrir samanlagt um 2,5 milljarða króna í nýafstöðnu útboði flugfélagsins. Umsvifamestir í þeim hópi eru Pálmi Haraldsson, fyrrverandi stjórnarmaður í Icelandair og eigandi ferðaskrifstofunnar Úrvals-Útsýnar, Högni Pétur Sigurðsson, eigandi Hard Rock Cafe á Íslandi, og hjónin Bogi Þór Siguroddsson og Linda Björk Ólafsdóttir, eigendur heildverslunarinnar Johan Rönning, en félög í eigu þessara fjárfesta keyptu fyrir meira en 900 milljónir í hlutafjárútboðinu og fara með samtals um 4,3 prósenta hlut.

Pálmi og Högni Pétur voru fyrir stórir hluthafar í Icelandair – Pálmi heldur sínum tveggja prósenta hlut á meðan hlutur Högna þynnist talsvert og er nú 1,36 prósent – en Bogi Þór og Linda koma ný inn í hluthafahópinn í gegnum hið nýstofnaða eignarhaldsfélag Bóksal sem keypti fyrir rúmlega 250 milljónir.

Þetta má lesa út úr lista yfir alla hluthafa Icelandair í lok síðustu viku og sem Markaðurinn hefur séð. Á meðal annarra fjársterkra einstaklinga sem tóku þátt í útboðinu, með því að kaupa á bilinu um 30 til 100 milljónir, má nefna Eirík Vignisson, stóran hluthafa í Kviku og Brimi, Þorvald Gissurarson, eiganda ÞG Verktaka, hjónin Finn Rey Stefánsson og Steinunni Jónsdóttur, sem eiga fjárfestingafélagið Snæból, Hannes Hilmarsson, forstjóra Air Atlanta, Róbert Wessman, stofnanda og forstjóra Alvogen, Ólaf Torfason, eiganda Íslandshótela, og Örvar Kjærnested, stjórnarformann TM.

Þá keypti Skeljungur fyrir 126 milljónir króna, sem tryggir félaginu um 0,44 prósenta hlut í Icelandair, og dótturfélag útgerðarfyrirtækisins Skinneyjar-Þinganess fjárfesti í flugfélaginu fyrir rúmlega 30 milljónir í útboðinu.

Spurður um fjárfestingu Skeljungs segir Árni Pétur Jónsson, forstjóri félagsins, að það hafi verið mat stjórnar að eftir að hafa fengið kynningu á meðal annars framtíðarspá og áætlunum Icelandair að þær hafi verið „trúverðugar og félagið því ágætur fjárfestingakostur. Þótt ástandið sé erfitt í dag þá verðum við að trúa því, og vinna í því, að það batni. Þá eiga Skeljungur og Icelandair sér langa sögu af góðu samstarfi. Í dag erum við til dæmis að þjónusta allt innanlandsflugið,“ segir í svari hans til Markaðarins.

Öll tryggingafélögin nema VÍS tóku þátt í útboði Icelandair og fjárfestu fyrir samanlagt um 220 milljónir. Sjóvá keypti fyrir 94 milljónir en tryggingafélögin Vörður og TM bæði fyrir um 63 milljónir.

Icelandair Group sótti sér sem kunnugt er samtals 23 milljarða króna í almennu hlutafjárútboði sem fór fram um miðjan síðasta mánuð en útboðsgengið var ein króna á hlut. Mikil eftirspurn reyndist vera frá almennum fjárfestum og er eignarhlutur þeirra í félaginu um 50 prósent eftir útboðið en fjöldi hluthafa er nú ellefu þúsund talsins. Hinir nýju hlutir voru fyrst teknir til viðskipta í Kauphöllinni síðastliðinn miðvikudag.

Stærstu hluthafar Icelandair í dag eru lífeyrissjóðirnir LSR og Gildi með annars vegar um 8 prósenta hlut og hins vegar um 6,6 prósenta hlut. Þrír af stærstu hluthöfum félagsins fyrir útboðið – Lífeyrissjóður verzlunarmanna, bandaríski fjárfestingasjóðurinn Par Capital og Birta lífeyrissjóður – tóku hins vegar ekki þátt og þynntist hlutur þeirra því um 80 prósent.

Þá eru bankarnir fjórir, einkum Íslandsbanki og Landsbankinn, skráðir fyrir umtalsverðum eignarhlut í flugfélaginu, eða samtals um 15 prósenta hlut. Þau bréf skiptast hins vegar að langstærstum hluta á veltubók og framvirka samninga sem bankarnir hafa gert við viðskiptavini sína. Enn á eftir að gera upp einhver viðskipti og því endurspeglar núverandi hluthafalisti ekki endanlega mynd eftir útboðið.

Hlutabréfaverð Icelandair hefur lækkað nokkuð að undanförnu og við lokun markaða í gær stóð gengi bréfa félagsins í 0,9 krónum á hlut. Í tilkynningu sem félagið sendi frá sér í gær kom fram að heildarfjöldi farþega í millilandaflugi hefði verið 12 þúsund í september og dregist saman um 97 prósent á milli ára. Á sama tíma minnkaði heildarframboð sæta um 96 prósent frá fyrra ári.

Boga Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir að farþegafjöldinn endurspegli þær takmarkanir sem séu í gildi á landamærum og áhrif þeirra á eftirspurn. „Við höfum undirbúið félagið undir slíkar aðstæður og unnið markvisst að því á liðnum mánuðum að viðhalda þeim sveigjanleika sem til þarf til að bregðast hratt við breytingum á okkar mörkuðum á hverjum tíma.“