Einar S. Hálfdánarson endurskoðandi hefur sagt sig úr endurskoðunarnefnd Reykjavíkurborgar. Er þetta vegna þeirrar reikningsskilaaðferðar sem notuð er hjá Félagsbústöðum, sem Einar varaði við þann 23. mars að stæðist ekki skoðun.

Félagsbústaðir eru gerðir upp samkvæmt IFRS-staðli. En þar sem félagið er óhagnaðardrifið ætti ekki að nota IFRS samkvæmt Einari sem vísaði í minnisblað KPMG frá árinu 2012 og efaðist um að fyrirkomulagið stæðist íslensk lög. Skiptir þetta máli hvað varðar að gera fasteignirnar upp, en Félagsbústaðir eiga alls 1.971 íbúð. Nú séu þær gerðar upp á gangvirði en ekki afskrifuðu kostnaðarverði.

Í úrsagnarbréfi sínu, sem sent var í gær, segir Einar að aðrir nefndarmenn hafi komist að annarri niðurstöðu og bókað sameiginlega þess efnis í nefndinni. Hafi samstarfið við aðra nefndarmenn og innri endurskoðun þó verið með ágætum fram að þessu og nefnir hann sem dæmi gerð braggaskýrslunnar, sem hafi þó verið stungið undir stól.

„Af braggaskýrslunni mátti jafnvel ráða að sum brotin kynnu að varða við ákvæði hegningarlaga um umboðssvik,“ segir Einar. „Það er okkur í nefndinni ekki til mikils sóma að hafa ekki fylgt þessari skýrslu eftir eins og endurskoðunarnefndum ber að gera þegar vart verður við mögulega sviksemi í stofnunum sem undir þær heyra.“