Vegna skorts á jörðum til endur­heimtar vot­lendis og á­hrifa krafna um vottun á fjár­mögnun verk­efna, hafa stjórn Vot­lendis­sjóðs og fram­kvæmda­stjóri á­kveðið að draga úr rekstri sjóðsins þar til al­þjóð­leg vottun kol­efnis­eininga sjóðsins er í höfn, en það ferli er þegar hafið. Fram að vottun verður látið af sölu kol­efnis­eininga. Samið hefur verið við fram­kvæmda­stjóra sjóðsins, Einar Bárðar­son, um starfs­lok en hann mun á­fram verða stjórn sjóðsins innan handar við úti­standandi verk­efni.

Þetta kemur fram í til­kynningu frá sjóðnum í dag en hann kallar þó eftir á­fram­haldandi sam­vinnu við land­eig­endur sem eru á­huga­samir um minnkun losunar gróður­húsa­loft­tegunda, eflingu fugla­lífs og lífs í vötnum og ám og/eða sölu al­þjóð­lega vottaðra kol­efnis­eininga.

„Stjórn Vot­lendis­sjóðs þykir miður að þurfa að draga tíma­bundið saman seglin í starf­seminni, þar sem hvert ár sem losun frá fram­ræstu vot­lendi hefur verið stöðvuð telur í bar­áttunni gegn hlýnun jarðar. Stærsti kosturinn við endur­heimt vot­lendis, sem náttúru­miðuð lausn í lofts­lags­bar­áttunni, er að einungis tekur nokkra daga eða vikur frá fram­kvæmd þar til að losun gróður­húsa­loft­tegunda hefur minnkað veru­lega. En á meðan ekki fást jarðir til endur­heimtar og mögu­leikar til fjár­mögnunar verk­efnanna eru skertir, er það mat stjórnarinnar að þetta sé á­byrgasti kosturinn í stöðunni, sam­hliða því að unnið er að vottun. Stjórn sjóðsins vonast þó eftir á­fram­haldandi stuðningi sam­fé­lagsins við þetta mikil­væga verk­efni. Við erum enn þá full­viss um að endur­heimt vot­lendis sé ein besta og skil­virkasta lofts­lags­að­gerð sem stendur til boða á Ís­landi,“ segir Ingunn Agnes Kro, stjórnar­for­maður Vot­lendis­sjóðs, í til­kynningunni.

Þar kemur einnig fram að vinna við að afla Vot­lendis­sjóði al­þjóð­lega vottun sé í fullum gangi en sam­kvæmt á­ætlun er gert ráð fyrir því að ferlinu ljúki á seinni hluta þessa árs. Því standa vonir til þess að hægt verði að hefja vottaða endur­heimt á seinni hluta ársins 2023 og sölu á virkum einingum, fyrir hönd á­huga­samra land­eig­enda, á síðari hluta ársins 2024.

Í til­kynningunni kemur einnig fram að endur­heimt í fyrra hafi verið stjórninni mikil von­brigði en að­eins var hægt að endur­heimta 79 hektara af vot­lendi, sem er undir 0,1 prósent af því sem talið hefur verið unnt að endur­heimta hér­lendis. Þau segja nauð­syn­legt að taka skref til baka og skoða heildar­myndina.

„Ýmsir þættir hafa haft nei­kvæð á­hrif á öflun jarða til endur­heimtar vot­lendis, svo sem skortur á fjár­hags­legum hvötum til land­eig­enda, bið eftir form­legri stað­festingu á á­hrifum endur­heimtar vot­lendis á losun gróður­húsa­loft­tegunda frá ís­lensku vot­lendi, skortur á vottun og skortur á slag­krafti af hálfu stjórn­valda í mála­flokknum. Með vottun vonast Vot­lendis­sjóður til þess að rutt verði úr vegi flestum þessara þröskulda.“

Til­kynninguna er hægt að kynna sér í heild sinni hér á vef sjóðsins.