Verslanamiðstöðin Trafford Centre í nágrenni ensku stórborgarinnar Manchester hefur nú færst í eigu lánadrottna sinna, að því er breska dagblaðið The Times greinir frá. Helsti kröfuhafi Trafford Centre er stærsti lífeyrissjóður Kanada, CPPIB.

CPPIB hafði lánað 250 milljónir punda til Intu, eignarhalds- og rekstrarfélags Trafford Centre, með veði í verslanamiðstöðinni sjálfri. Intu endaði hjá skiptastjóra í júní á þessu ári eftir að samningaviðræður við kröfuhafa báru ekki árangur. Heildarskuldir Intu námu þá um 4,5 milljörðum punda.

Rekstur Intu, sem á fleiri verslanamiðstöðvar í Bretlandi, hafði gengið illa um nokkurt skeið. Illa hafði gengið að innheimta leigu frá verslunareigendum vegna mikillar samkeppni netverslunar og launakostnaður hafði farið úr böndunum. Strangar sóttvarnaraðgerðir í Bretlandi höfðu síðan sín neikvæðu áhrif á verslun, eins og flestum er kunnugt um. Alls starfa um 2400 manns hjá Intu.

Skiptastjórinn KPMG hefur reynt að selja Trafford Centre síðan í sumar án árangurs. Meðal áhugasamra kaupenda voru fjárfestirinn Mike Ashley og fasteignarmur fjáfestingabankans Morgan Stanley. Kanadíski lífeyrissjóðurinn kom hins vegar í veg fyrir að nokkur þeirra tilboða sem bárust yrðu samþykkt, en hæstu tilboð voru sögð í kringum 900 milljónir punda.

Forsvarsmenn CPPIB hafa sagt að yfirtakan á rekstri Trafford Centre sé gerð með langtímasjónarmið í huga og að næsta verkefni sé að styðja við rekstur og stjórnendur verslanamiðstöðvarinnar.

Trafford Centre opnaði fyrir gestum árið 1998 og var á þeim tíma stærsta verslanamiðstöð Evrópu, þó að síðan þá hafi nokkrar töluvert stærri opnað, bæði á meginlandi Evrópu og í Bretlandi.