Eimskip, hvar Samherji er kjölfestuhluthafi með 27 prósenta hlut, lækkaði um 4,6 prósent í dag í viðskiptum sem nema 126 milljónum króna. Hagar, hvar Samherji er á meðal stærstu hluthafa með rúmlega fjögur prósenta hlut, lækkaði um 2,4 prósent í viðskiptum sem nema 138 milljónum króna.

Arion banki lækkaði um 2,4, Eik um 1,9 prósent og Reginn, TM og Sjóvá um 1,7 prósent.

Fram kom í fréttaskýringarþættinum Kveiki í Ríkissjónvarpinu og í Stundinni í gær að stjórnendur Samherja hafi greitt stjórnmálamönnum og samstarfsmönnum þeirra mútur til að komast yfir ódýrari sjófrystikvóta á hrossamakríl.

Skeljungur hækkar í kjölfar uppgjörs

Tvö félög hækkuðu í Kauphöllinni í dag. Skeljungur, sem birti uppgjör í gær sem var yfir væntingum, hækkaði um 2,1 prósent í 382 milljón króna viðskiptum og Origo hækkaði um 0,6 prósent.

Hagnaður Skeljungs fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) á þriðja ársfjórðungi var ellefu prósent yfir væntingum Hagfræðideildar Landsbankans. Sá hagnaður nam 1.237 á ársfjórðungnum.

Framlegðin lækkaði um eitt prósent á milli ára á Íslandi samanborið við 10 prósenta lækkun á öðrum ársfjórðungi. Hagnaður af starfseminni á Íslandi fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta var 906 milljónir króna jókst um tvö prósent á milli ára. „Miklar lækkanir framlegðar og EBITDA milli ára á Íslandi á öðrum ársfjórðungi héldu því ekki áfram á þriðja fjórðungi,“ segir í viðbrögðum Landsbankans við uppgjöri Skeljungs.