Sala bandaríska fjárfestingafélagsins The Yucaipa Companies á fjórðungshlut sínum í Eimskip þrýsti hlutabréfaverðinu í Kauphöllinni upp um 11,4 prósent í morgun. 

Velta með bréfin það sem af er degi nemur 11.190 milljónum króna og má að langstærstum hluta rekja til Yucaipa sem seldi 25,3 prósenta eignarhlut sinn fyrir ríflega 11,1 milljarð króna, alls 50,6 milljónir hluta, á genginu 220 krónur á hlut. 

Til samanburðar var gengi hlutabréfa í Eimskip 201 króna á hlut í gær en það stóð í um 272 krónum á hlut þegar félagið greindi fyrst frá áformum sínum um að skoða sölu á hlutnum.