Stjórn Eimskips leggur til við aðalfund að skipafélagið muni greiða 447 milljónir króna í arð eða sem nemur 65 prósent af hagnaði síðasta árs. Að sama skapi er lagt til að hlutafé verði lækkað með greiðslu til hluthafa sem nemur 1.676 milljónum króna. Samanlagt munu hluthafar fá 2,1 milljarð króna. Þetta kemur fram í tillögum fyrir aðalfund sem haldinn verður 25. mars.

Viðhalda eiginfjárhlutfalli nálægt 40 prósentum

„Við uppgjör þriðja ársfjórðungs 2019 í lok nóvember var framtíðar fjármagnsskipan félagsins og þriggja ára fjárfestingaráætlun kynnt. Markmið félagsins er að viðhalda eiginfjárhlutfalli nálægt 40 prósent og hóflegu skuldsetningarhlutfalli sem væri 2-3 sinnum nettó vaxtaberandi skuldir á móti EBITDA. Markmiðið með þessu var að auka gagnsæi og fyrirsjáanleika og þar með auka þjónustu við fjárfesta og greinendur á markaði.

Enginn arður var greiddur út til hluthafa árið 2020 vegna áhrifa COVID-19 faraldursins. Arðgreiðslur til hluthafa hafa verið tiltölulega lágar undanfarin ár. Sjóðsstreymi frá rekstri hefur verið sterkt og gert er ráð fyrir að það haldi áfram árið 2021. Ný þriggja ára fjárfestingaráætlun gerir ekki ráð fyrir verulegum fjárfestingum og með þessari tillögu nálgast félagið frekar markmið sitt um að viðhalda eiginfjárhlutfalli nálægt 40 prósent en það myndi lækka um 1,7 til 2,0 prósent með þessari breytingu.

Lækkun hlutafjár er ein þeirra leiða sem fær er til að ná þessum markmiðum og þess vegna er tillagan lögð fram nú til hagsbóta fyrir hluthafa,“ segir í tillögum stjórnar.

Stjórn leggur til að Eimskip fái heimild til að kaupa eigin bréf fyrir allt að 10 prósent af hlutafé félagsins á næstu 18 mánuðum.

Samherji Holding er stærsti hluthafi Eimskips með 27 prósenta hlut, Lífeyrissjóður verslunarmanna er með 15 prósenta hlut og Gildi með 14 prósenta hlut.