Eimskip hefur ákveðið að fella afkomuspá sína fyrir árið 2020 úr gildi vegna óvissunnar vegna kórónaveirunnar. Aukin neikvæð áhrif á alþjóðlegt efnahagsumhverfi, þar á meðal Norður-Atlantshafssvæðið sem er kjarnamarkaður skipafélagsins, mun hafa áhrif á tekjur og arðsemi á næstu vikum og mánuðum.

Þetta kemur fram í tilkynningu sem Eimskip sendi Kauphöllinni í morgun.

„Þegar hafðar eru í huga þær breytingar sem eiga sér stað dag hvern er ljóst að félagið getur ekki í þessu ástandi metið hversu lengi það muni vara og hvaða áhrif það mun hafa.

Eimskip mun halda áfram að vakta og fylgjast grannt með þróun Covid-19 en félagið hefur gripið til margvíslegra aðgerða síðustu daga og vikur til að takmarka áhrifin á reksturinn. Áherslan hefur verið lögð á að tryggja öryggi og heilsu starfsmanna og að tryggja flutningakeðju félagsins og þjónustu við viðskiptavini,“ segir í Kauphallartilkynningu félagsins.

Reksturinn á fyrsta ársfjórðungi þessa árs hefur verið sveiflukenndur, að sögn forsvarsmanna Eimskips. Janúar hafi farið ágætlega af stað, febrúar hafi verið talsvert undir áætlun en mars hafi fram til þessa verið í samræmi við áætlanir.

„Eimskip er fjárhagslega sterkt með hagstætt eiginfjárhlutfall og góða lausafjárstöðu, fjölbreyttan rekstur og breiðan viðskiptamannahóp sem er mikilvægur grunnur,“ segir í tilkynningunni.

Félagið segir að uppfærð afkomuspá verði birt markaðinum þegar skyggnið batnar og hægt verði að meta áhrif Covid-19 á rekstur félagsins.