Búist er við að EBITDA Eimskips af rekstri á þriðja ársfjórðungi 2021 verði umtalsvert betri en á sama ársfjórðungi í fyrra. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar. Er þessi spá byggð á stjórnendauppgjöri fyrir júlí og ágúst, sem nú liggur fyrir, ásamt áætlun fyrir september.

„Áætlað er að EBITDA á þriðja ársfjórðungi verði á bilinu 33,2 til 36,2 milljónir evra samanborið við 21,4 milljónir evra á sama ársfjórðungi síðasta árs. Að teknu tilliti til væntra afskrifta má gera ráð fyrir að EBIT fjórðungsins verði á bilinu 20,1 til 23,1 milljónir evra samanborið við 10,4 milljónir evra á þriðja ársfjórðungi síðasta árs,“ segir í tilkynningunni.

Gera má ráð fyrir að afkoma félagsins á árinu 2021 verði nær efri mörkum uppfærðar afkomuspá sem gefin var út þann 19. ágúst. Þar kom fram að aðlöguð afkomuspá fyrir árið 2021 liggi á bilinu 90-100 milljónir evra. Breitt bil endurspegli óvissu sem ríkir á alþjóðlegum flutningamörkuðum.

Jafnframt er tekið fram að uppgjöri fyrir þriðja ársfjórðung sé ólokið og niðurstöðurnar geti tekið breytingum samkvæmt því. Eimskip birtir uppgjör þriðja ársfjórðungs 2021 eftir lokun markaða þriðjudaginn 9. nóvember.