Eimskipafélag Íslands hefur beðist afsökunar að gámaskipin Laxfoss og Goðafoss hafi farið á endurvinnslustöð sem ekki samræmdist Evrópustöðlum. Félagið sendi frá sér tilkynningu í Kauphöllina í morgun þar sem ítrekað er að félagið telji sé hafa farið eftir lögum og reglum í söluferlinu.

„Eimskip þykir málið mjög leitt og lítur það alvarlegum augum enda leggur félagið, stjórnendur þess og starfsfólk mikla áherslu á samfélagslega ábyrgð í störfum sínum og hefur lengi hugað að umhverfismálum í sinni starfsemi.“ segir í tilkynningunni.

Félagið segist ekki hafa selt skipin til þess að hagnast á hærra endurvinnsluverði í öðrum heimshlutum. Vilhelm Már Þorsteinsson, forstjóri Eimskipafélagsins segist draga lærdóm af málinu og sé einhugur meðal stjórnar og stjórnenda að aðlaga núverandi samfélags- og umhverfisstefnu til að tryggja að svona atvik komi ekki fyrir aftur.

GMS kaupir skip til endurvinnslu

Fjallað var ítarlega um meint brot Eimskips í þætti Kveiks fyrir helgi. Þar kom fram að tvö af stærstu gámaskipum Eimskipafélagsins, Laxfoss og Goðafoss, voru rifin niður í skipakirkjugarði á 10 km strönd í bænum Alang á Indlandi. Aðferðin er umdeild og samræmist ekki Evrópulöggjöf sem Ísland hefur lögfest.

Eimskip seldi skipin tvö til alþjóðlegs fyrirtækis sem heitir GMS og sögðust ekki hafa vitað að skipin yrðu sett í endurvinnslu. GMS er hins vegar þekkt fyrir kaup á skipum sérstaklega til endurvinnslu.

Málið á borði Héraðssaksóknara

Stærstu líf­eyr­is­sjóðir lands­ins hafa óskað eft­ir skýr­ing­um frá stjórn­end­um Eim­skips um þau meintu brot sem fjallað var um í þætti Kveiks í síðustu viku.

Umhverfisstofnun hefur kært félagið til embættis héraðssaksóknara sem lögaðila vegna meintra brota á lögum um meðhöndlun úrgangs. Héraðssaksóknari hefur tekið á móti erindinu og er málið komið í hefðbundinn farveg.

Eimskip segist sömuleiðir vera að afla allra gagna og upplýsinga um málið og muni félagið fara yfir verkferla.