Innlent

Eik hættir við að fjárfesta í breskum framtakssjóði

Eik fasteignafélag hefur fallið frá áformum um þátttöku í breskum framtakssjóði. Sjóðurinn átti einkum að fjárfesta í lagerhúsnæði í Bretlandi.

Garðar Hannes Friðjónsson, forstjóri Eikar. Fréttablaðið/Ernir

Eik fasteignafélag hefur ákveðið að hætta við þátttöku sína í breskum framtakssjóði sem átti einkum að fjárfesta í lagerhúsnæði í Bretlandi. Þetta kemur fram í tilkynningu sem félagið sendi Kauphöllinni í kvöld.

Í tilkynningunni segir að stjórn fasteignafélagsins hafi farið yfir fjárfestingaráformin. Ljóst sé að fyrirvarar sem gerðir voru við þátttöku í framtakssjóðnum verði ekki uppfylltir.

Greint var frá því í ágúst síðastliðnum að Eik hefði, ásamt alþjóðlegum fjárfestum, undirritað áskriftarsamkomulag um stofnun framtakssjóðsins NW1 UK Logistics LP til þess að fjárfesta í lagerhúsnæði í Bretlandi. Var stefnt að því að 50 til 70 prósent af fjármunum sjóðsins yrði fjárfest í Lundúnum og um 30 til 50 prósent í öðrum stærstu borgum Bretlands.

Áskrift­ar­sam­komu­lagið, sem var skrifað undir með tilteknum fyr­ir­vör­um, skuldbatt fasteignafé­lagið til þess að leggja sjóðnum til allt að 10 millj­ón­ir punda. Var gert ráð fyrir að eigið fé sjóðsins gæti numið allt að 55 milljónum punda.

Í tilkynningu Eikar segir að stjórn fasteignafélagsins muni áfram vinna að því að „nýta betur þau tækifæri sem felast í núverandi eignasafni“ í samræmi við áherslur félagsins sem áður hafi verið kynntar.

Félagið gerði sem dæmi nýverið breytingar á skipuriti sínu og stofnaði sérstakt svið viðskiptaþróunar. Þá kom fram í kynningu vegna hálfsársuppgjörs félagsins í sumar að stjórnin hefði ákveðið að meta fýsileika erlendrar fjárfestingar með stækkun félagsins í huga og jafnframt til þess að auka áhættudreifingu þess. Fyrir lægi að tækifærum á Íslandi hefði fækkað á undanförnum misserum.

„Líkt og áður hefur komið fram telur stjórn í því samhengi þörf á vissum breytingum á tilgangi félagsins og mun stjórn á næstunni boða til hluthafafundar þar sem lagðar verða fram tillögur um slíkar breytingar,“ segir í tilkynningu Eikar. 

Samhliða því verði lagðar fram tillögur um stofnun tilnefningarnefndar og heimild til kaupa á eigin bréfum.

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Innlent

Helga Hlín segir sig úr til­nefningar­nefnd VÍS

Innlent

Vextir Seðla­bankans ó­breyttir

Innlent

Nýtt ­app Arion banka opið öllum

Auglýsing

Nýjast

Sjóðir Eaton Vance bæta við sig í Arion

Ísland áratug á eftir Noregi í netverslun

Aðkoma erlends banka sögð ólíkleg

Heimavellir ætla að sækja sér allt að 12 milljarða

Fengu 80 milljónir í þóknanir

Einn sjóður með nærri helming aflandskróna

Auglýsing