Úrvalsvísitalan hefur hækkað um 0,1 prósent skömmu eftir opnun markaða. Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands tilkynnti í morgun um að vextir bankans lækki 0,25 prósentur. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því 0,75 prósent.

Fasteignafélagið Eik leiðir hækkunina, hefur hækkað um 2,7 prósent, Eimskip hefur hækkað um tvö prósent og Sýn um 1,9 prósent. Veltan með bréf fyrirtækjanna er frá 20-40 milljónum króna.

Icelandair hefur lækkað um 1,5 prósent, Marel hefur lækkað um 0,7 prósent og Festi um 0,6 prósent.

Krafa á óverðtryggð ríkisskuldabréf hefur lækkað um 8 til 23 punkta. Veltan er frá 110 milljónum til 800 milljóna króna þegar þetta er ritað.

„Mikil fjölgun COVID-19-smita á haustdögum og hertar sóttvarnir valda því að dregið hefur úr þeirri viðspyrnu í efnahagslífinu sem hófst á þriðja fjórðungi ársins eftir sögulegan samdrátt á öðrum ársfjórðungi. Efnahagshorfur hafa því versnað og gerir nóvemberspá Peningamála ráð fyrir 8,5 prósenta samdrætti landsframleiðslu á þessu ári sem er ríflega 1 prósentu meiri samdráttur en spáð var í ágúst. Einnig er spáð minni hagvexti á næsta ári. Óvissa um efnahagshorfur er mikil og mun þróun efnahagsmála að töluverðu leyti ráðast af framvindu farsóttarinnar,“ segir í tilkynningu frá Seðlabankanum.

Samkvæmt spá Seðlabankans eru horfur á að verðbólga verði um 3,7% að meðaltali fram á næsta ár en taki þá að hjaðna enda slakinn í þjóðarbúinu mikill.