Guðmundur Hafsteinsson, stjórnarformaður Icelandair fjallaði á aðalfundi Icelandair í dag hversu hröð enduruppbygging félagsins hefur verið undanfarið og að hún hafi skipt sköpum fyrir endurreisn íslenskrar ferðaþjónustu, efnahagslíf og samfélagið í heild. Þá ræddi hann rekstrarskilyrði fyrirtækja í flugi og ferðaþjónustu, fyrirhugaða löggjöf Evrópusambandsins varðandi losunarskatt og mikilvægi hvata stjórnvalda í stað skattlagningar til að stuðla að sjálfbærri þróun í flugi.

„Forsendan fyrir því að tryggja sjálfbæra framtíð og verja mikilvægan ávinning af flugi og ferðaþjónustu eru góð rekstrarskilyrði. Hér þarf að huga að bæði að rekstrarumhverfinu hérlendis og alþjóðlega.

Að undanförnu hefur til að mynda skapast umræða um fyrirhugaða löggjöf Evrópusambandsins sem tekur meðal annars til losunarskatts á flugferðir og kröfu um íblöndun sjálfbærs flugvélaeldsneytis. Gallinn á þessari löggjöf er hins vegar sá að hún hefði í för með sér að aukinn kostnaður vegna kolefnislosunar myndi leggjast á lönd eins og Ísland umfram önnur lönd, einungis vegna landfræðilegrar stöðu. Það myndi skerða samkeppnisstöðu íslenskra flugfélaga gagnvart erlendri samkeppni verulega sem og Íslands sem tengimiðstöðvar í flugi. Flug til, frá og um Ísland myndi því einfaldlega færast annað, þar sem kostnaður yrði ekki jafn íþyngjandi,“ sagði Guðmundur í ræðu sinni á fundinum og að áhrifin af þessu yrðu gríðarleg., ekki bara fyrir félagið heldur fyrir ferðaþjónustuna og atvinnulífið í heild.

„Ísland hefur og á að hafa metnað til þess að ná árangri í loftslagsmálum. Með þessari útfærslu verður markmiðinu að draga úr kolefnislosun hins vegar ekki náð þar sem flugið myndi einungis færast til,“ sagði Guðmundur og að félagið hefði oft bent á að umhverfisvænna er að fljúga Boeing 737-MAX flugvélum milli Evrópu og Norður-Ameríku með viðkomu á Íslandi en að fljúga á breiðþotu með beinu flugi yfir Atlantshafið.

Frá vinstri Sylvía Kristín Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri þjónustu og markaðsmála, Bogi Nils Bogason forstjóri, Guðmundur Hafsteinsson stjórnarformaður og Tómas Ingason, framkvæmdastjóri tekjusviðs.
Fréttablaðið/Aðsend

Hann sagði þetta stærsta hagsmunamál Íslands frá upptöku EES samningsins.

„Því sem eyja í miðju Atlantshafi eigum við allt undir öflugum flugsamgöngum. Við fögnum því að íslensk stjórnvöld séu að vinna að því hörðum höndum að verja hagsmuni Íslands og tryggja að við berum jafnar byrðar og önnur Evrópulönd þegar kemur að aðgerðum í loftslagsmálum. Við gerum auðvitað ráð fyrir því að Ísland muni ekki taka þátt í aðgerðum sem muni draga úr samkeppnishæfni íslenskra flugfélaga og íslensks atvinnulífs í heild sinni,“ sagði hann og að það þurfi að huga að rekstrarumhverfi á Íslandi. Að hér séu ekki settir séríslenskir skattar og gjöld á flug heldur séu settir fram hvatar og stuðningur stjórnvalda við sjálfbæra þróun í flugi.

„Það er það sem mun hraða þróun nýrrar tækni og þar með orkuskiptum og á sama tíma styrkja samkeppnishæfni Íslands. Því það er sterk samkeppnisstaða Íslands sem áfangastaðar og sem tengimiðstöðvar í flugi sem skilar mestum ávinningi fyrir land og þjóð og gerir fjölmörgum fyrirtækjum eins og Icelandair kleift að halda merkjum Íslands á lofti út um allan heim, hér eftir sem hingað til,“ sagði Guðmundur að lokum.

Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair
Fréttablaðið/Anton Brink

Ekki sjálfgefið að höfuðstöðvar séu á Íslandi

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, fór á fundinum yfir árangur félagsins á síðasta ári. Næstu skref félagsins og tækifæri í framtíðinni.

„Heildartekjur félagsins námu 1.265 milljónum og jukust um 116% á milli ára. Einingatekjur jukust um 23% og var aukning þeirra 25% á milli áranna 2019 og 2022. Áhersla okkar á að auka nýtingu á Saga Class farrýminu skilaði góðum árangri sem hafði mikil áhrif á þessa jákvæðu þróun en hún jókst um 19 prósentustig og einingatekjurnar þar um 48%. Góður rekstur, miðað við aðstæður, og sterkt sjóðsstreymi á síðasta ári gerir það að verkum að við stöndum styrkum fótum og erum vel í stakk búin til að taka félagið inn í framtíðina,“ sagði Bogi og að kjarninn í þeirra viðskiptalíkani væri leiðakerfið og einstök staðsetning Íslands.

Bogi sagði það þó ekki sjálfgefið að reka íslenskt flugfélag með höfuðstöðvar á Íslandi.

„Þrátt fyrir að við hjá Icelandair séum stanslaust að huga að kostnaði og hvernig er hægt að lágmarka hann, þá gerum við okkur fulla grein fyrir því að flugfélag á Íslandi getur aldrei verið leiðandi á alþjóðlegum mörkuðum hvað varðar kostnað. Til þess erum við allt of lítil og búum við rekstrarumhverfi sem einkennist af háum kostnaði. Við verðum því að vinna leikinn á tekjuhliðinni og þar höfum við byggt upp mjög sterka innviði og sérstöðu á síðustu áratugum sem eru svo sannarlega að skila sér núna,“ sagði Borgi og nefndi nokkur dæmi.

Alls 50 flugvélar

Hann sagði að á þessu ári séu þau að horfa á sína stærstu flugáætlun en alls munu þau fljúga til 54 áfangastaða í Evrópu og Norður Ameríku og þar af séu fjórir nýir staðir í Detroit, Tel Aviv, Barcelona, Prag og svo komi Krít inn í leiðakerfi félagsins eftir að hafa einungis verið í boði í leiguflugi hingað til.

„Það þarf sterka innviði til að standa undir allri þessari starfsemi sem við erum búin að fara yfir hér að framan. Þar á meðal er flugflotinn sem heldur áfram að vaxa og yngjast. Í sumar verðum við með 34 flugvélar í notkun í alþjóðlega farþegaleiðarkerfinu og sex vélar í innanlands og Grænlandsflugi. Þá erum við með þrjár fraktvélar í rekstri hjá Icelandair Cargo og þar af eina breiðþotu sem við tókum í notkun á síðasta ári, í fyrsta skipti í sögu fraktstarfsemi félagsins. Önnur slík mun hefja flug í leiðakerfinu á næstu vikum. Í leiguflugsstarfseminni hjá Loftleiðum erum við með sjö vélar í rekstri. Þannig að samtals verðum við með yfir 50 vélar í rekstri á þessu ári,“ sagði Bogi.

Hann sagði það sem skipti öllu sé þó fólkið og að á þessu ári verði tæplega 3.700 stöðugildi hjá félaginu að meðaltali og yfir háönnina muni um 5.000 starfsmenn starfa hjá félaginu.