Hrein eign sjóðsins í lok árs nam rétt rúmlega 916 milljörðum króna og jókst um 152 milljarða króna á milli ára.

Munar þar mest um hreinar fjárfestingartekjur á árinu sem námu 138,5 milljörðum króna. Góð ávöxtun sjóðsins á árinu 2021 var fyrst og fremst borin uppi af innlendum og erlendum hlutabréfum og erlendum framtakssjóðum.

Innlend skuldabréf skiluðu einnig góðri ávöxtun á árinu sem og flestir aðrir eignaflokkar.

Árni Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gildis, segir hagfelldar aðstæður á markaði fyrst og fremst skýra þessa góðu afkomu.

„Lífeyrissjóðir eru langtímafjárfestar og í því sambandi má benda á að hrein raunávöxtun á síðustu fimm árum er 8,5 prósent og síðustu tíu ár 7,1 prósent,“ segir Árni.

Gildi-lífeyrissjóður er fjölmennasti lífeyrissjóður landsins en í lok árs 2021 áttu tæplega 252 þúsund sjóðfélagar réttindi hjá sjóðnum. Þá greiddu rúmlega 6.700 launagreiðendur iðgjöld fyrir tæplega 53 þúsund sjóðfélaga á síðasta ári.

Sjóðurinn varð til árið 2005 við sameiningu Lífeyrissjóðsins Framsýnar og Lífeyrissjóðs sjómanna.

Við stofnun námu eignir sjóðsins rúmlega 181 milljarði króna, sem þýðir að sjóðurinn hefur ríflega fimmfaldast á sextán árum.

Árið 2011 námu eignir sjóðsins ríflega 265 milljörðum sem þýðir að sjóðurinn er í dag ríflega þrisvar sinnum stærri í eignum en hann var fyrir 10 árum síðan. Það samsvarar því að hrein eign sjóðsins hafi hækkað um 65 milljarða á hverju einasta ári síðastliðinn áratug.

Allir stærstu lífeyrissjóðir landsins hafa nú birt ársuppgjör síðasta árs. Raunávöxtun Lífeyrissjóðs verslunarmanna nam 11,5 prósentum á síðasta ári, LSR skilaði 10 prósent raunávöxtun og Birta lífeyrissjóður 10,1 prósenti. Raunávöxtun Gildis var sem fyrr segir 12,4 prósent.

Samanlagðar eignir þessara fjögurra stærstu lífeyrissjóða landsins námu um 4 þúsund milljörðum króna í lok síðasta árs.

Farið verður ítarlega yfir afkomu Gildis á ársfundi sjóðsins þann 28. apríl næstkomandi.