Ríkisskattstjóri, Hvalfjarðarsveit, Vátryggingafélag Íslands og Sýslumaðurinn á Vesturlandi hafa farið fram á að fjórar landeignir fjölmiðlamannsins Björns Inga Hrafnssonar í Hvalfirði verði settar á nauðungarsölu.

Eignirnar sem um ræðir eru Másstaðir 2 til 5 og nema kröfurnar samtals um 40 milljónum króna. Viðskiptablaðið greindi fyrst frá.. Þá hefur Sýslumaðurinn á Vesturlandi boðað að beiðnir ofangreindra aðila á eignunum verði teknar fyrir 22. ágúst næstkomandi.

Björn Ingi rekur og ritstýrir í dag vefmiðlinum Viljanum. Hann var áður útgefandi Pressunnar og DV, í gegnum félögin Pressuna og Vefpressuna, auk þess sem hann fór fyrir félaginu BOS, sem átti og rak Argentínu steikhús, um tíma.

Pressan var tekin til gjaldþrotaskipta í lok árs 2017 og Vefpressan síðasta sumar. Félagið BOS var sömuleiðis úrskurðað gjaldþrota í fyrra eftir að Argentínu hafði verið skellt í lás.

Kröfurnar vegna Másstaða 2 nema 10.813.290 krónum, kröfur vegna Másstaða 3 nema 9.597.740 krónum, Másstaðir 4 bera alls 9.651.467 krónur og Másstaðir 5 9.725.735 krónur. Samanlagt nema kröfurnar alls 39.788.232 krónum.