Hraði er það orð sem lýsir síðastliðnu ári hvað best þegar kemur að atburðarásinni á fjármálamörkuðum og í efnahagsmálum á heimsvísu. Í kjölfar fyrstu COVID-19 sóttvarnaaðgerðanna í Kína seint í janúar tók sem dæmi aðeins um sex vikur fyrir heimsbúskapinn að stöðvast vegna hertra takmarkana á daglegu lífi fólks. Efnahagssamdrátturinn var gífurlegur og nam um 20% þegar verst lét í byrjun apríl. Hlutabréfamarkaðir hrundu og í Bandaríkjunum hafði markaðurinn aldrei áður lækkað eins snögglega um 30%. Fordæmalaus og skjót viðbrögð seðlabanka og stjórnvalda við þeim skaða sem blasti við náðu hins vegar að sefa áhyggjur fjárfesta og sú hraða viðspyrna sem tók af stað innan fjármálamarkaða í lok mars reyndist söguleg. Alls hækkaði heimsvísitala hlutabréfa um 15% á síðasta ári og hlutabréfamarkaðurinn hérlendis fór upp um 20%. Sneggsta þróunarferli bóluefnis fyrr og síðar með tilkomu virkra bóluefna gegn COVID-19 við árslok var síðan fullkominn tákngervingur fyrir hraðann sem einkenndi árið 2020.

Afleiðingarnar af þessu einstaka ári eru hins vegar margþættar. Fyrst má nefna að vextir hafa aldrei verið lægri vegna skarpra vaxtalækkana seðlabanka. Ársvextir óbundinna sparireikninga á Íslandi eru þannig á bilinu 0,05% til 1% í dag. Verði 3% verðbólguspá greiningaraðila að veruleika munu sparifjáreigendur því að öðru óbreyttu horfa upp á verulega rýrnun fjármuna sinna á þessu ári. Eftir kröftugar verðhækkanir undanfarna ársfjórðunga er verðlagning hlutabréfamarkaða víðs vegar um heiminn einnig orðin rausnarleg á hefðbundna mælikvarða. Vanda verður valið nú sem aldrei fyrr.

Í stuttu máli, þessar aðstæður kalla á nýja nálgun af hálfu sparifjáreigenda í leit að ávöxtun fjármuna sinna á þessu ári. Nauðsynlegt verður að taka vel ígrunduð skref úr innlánum inn á fjármálamarkaði til þess að auka vænta ávöxtun í lágvaxtaheimi. Tvenns konar breytingar ættu þannig að koma til skoðunar. Annars vegar ætti að stefna að vægi skuldabréfa og hlutabréfa sem hentar hverjum og einum og hins vegar ætti að stefna að auknu vægi erlendra markaða í eignasöfnum. Blandað, alþjóðlegt safn er þannig ein nálgun að eignadreifingu fyrir nýja tíma.

Rétt er þá að spyrja hvaða þættir gætu litað árangur slíks safns á komandi misserum. Í fyrsta lagi er það framvinda bólusetninga gegn COVID-19. Spurningin um hvaða lönd og atvinnugreinar gætu skarað fram úr á mörkuðum ræðst að einhverju leyti af því hversu hratt bólusetningar munu vinna á farsóttinni. Í öðru lagi er það mikilvægi þess að ná fram landfræðilegri dreifingu innan bæði hlutabréfa og skuldabréfa. Hægt er að margfalda flóruna af mögulegum fjárfestingarkostum með því að sækja inn á erlenda skuldabréfamarkaði sem dæmi. Í þriðja lagi er það þáttur virkrar stýringar, en í núverandi umhverfi er það lykilatriði að vera á réttum stöðum innan markaðarins fremur en að fylgja hlutlausri fjárfestingarstefnu sem er alfarið bundin við almennar vísitölur.

Eftir kröftugar verðhækkanir undanfarna ársfjórðunga er verðlagning hlutabréfamarkaða víðs vegar um heiminn orðin rausnarleg á hefðbundna mælikvarða.

Síðastnefndi þátturinn er mikilvægur þegar kemur að erlendum hlutabréfamörkuðum í dag. Þannig geta einstakar atvinnugreinar eða landsvæði skilað ágætri ávöxtun yfir tímabil þar sem almennar hlutabréfavísitölur hafa fært fjárfestum litla sem enga ávöxtun. Svo dæmi sé tekið af bandaríska hlutabréfamarkaðnum þá hefur að jafnaði verið um 40% munur milli þeirra atvinnugreina sem skiluðu hæstu og lægstu ávöxtuninni yfir stök ár. Virk stýring keppir að því að grípa þessi tækifæri sem oft myndast innan mismunandi hluta markaðarins. Verkefni virkrar stýringar er auk þess að halda opnum hug á hverjum degi til að geta brugðist tímanlega við aðstæðum sem oft breytast mun hraðar en nokkurn órar fyrir, líkt og síðasta ár sýndi skilmerkilega.

Litið fram á við, þá ætti viðspyrna heimshagkerfisins að eflast á þessu ári í kjölfar bólusetninga gegn COVID-19 og vonir eru um að daglegt líf færist í fyrra horf með haustinu. Hins vegar er hætt við því að lágvaxtaumhverfið reynist þrálátt. Við ársbyrjun gæti því reynst skynsamlegt að taka varfærin og vel ígrunduð skref í átt að meiri eignadreifingu til að auka vænta ávöxtun til lengri tíma.

Höfundar eru sjóðstjórar hjá Akta sjóðum.