Eignarhaldsfélagið Ramses II, sem heldur utan um hlut Eyþórs Laxdal Arnalds, oddvita borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, í Morgunblaðinu, var með neikvætt eigið fé upp 239 milljónir króna í lok síðasta árs. Það var neikvætt um 152 milljónir í lok árs 2017.

Þetta kemur fram í nýbirtum ársreikningi Ramses II. Félagið tapaði 87 milljónum króna á síðasta ári samanborið við 152 milljónir árið 2017.

Tuttugu prósenta hlutur í Þórsmörk, móðurfélagi Árvakurs, sem er útgáfufélag Morgunblaðsins og tengdra miðla, er eina eign Ramsesar II. Árvakur var rekið með 415 milljóna króna tapi á síðasta ári.

Eyþór á Ramses II í gegnum Ramses sem heldur utan um aðrar fjárfestingar hans, til að mynda í álvinnslufyrirtæki á Grundartanga. Ramses tapaði 65 milljónum króna á síðasta ári. Eigið fé félagsins nam 416 milljónum króna í lok árs og eiginfjárhlutfallið 60,5 prósentum.