Eigið fé samstæðureiknings Reykjavíkurborgar er hugsanlega ofmetið um tugi milljarða króna, ef marka má álit reikningsskila- og upplýsinganefndar sveitarfélaga um hvernig taka eigi reikningsskil félaga í eigu sveitarfélaga inn í samstæðureikning. Tilefni álits nefndarinnar eru innsend erindi Einars S. Hálfdánarsonar, lögmanns og Vigdísar Hauksdóttur, borgarfulltrúa. Erindin sneru að því hvort það stæðist lög að Reykjavíkurborg skilgreini fasteignir sem leigðar eru út til einstaklinga á grundvelli laga um félagsþjónustu, sem fjárfestingaeignir. Að sama skapi var nefndin spurð að því hvort Reykjavíkurborg væri heimilt að færa ársreikninga Félagsbústaða óbreytta inn í samantekin reikningsskil samstæðureiknings borgarinnar.

Forsaga málsins er sú að Einar S. Hálfdánarson, lögmaður og löggiltur endurskoðandi, sem þá átti sæti í endurskoðunarnefnd borgarráðs, sendi borgarráði bréf í mars á þessu ári þar sem efasemdum var lýst um hvernig reikningsskil Félagsbústaða væru meðhöndluð í samstæðureikningi Reykjavíkur. Félagsbústaðir væru gerðir upp samkvæmt alþjóðlegum reikningsstöðlum, IFRS. Í bréfi sínu bendir Einar á að Félagsbústaðir séu ekki reknir í hagnaðarskyni og slík félög í öðrum EES-löndum noti ekki IFRS-staðla. Fasteignir Félagsbústaða væru þannig gerðar upp á gangvirði, sem þýddi að árlega hækkaði virði eigna félagsins í takt við þróun á markaði. Einar sagðist þá telja eðlilegra að eignirnar yrðu metnar á afskrifuðu kostnaðarverði. Félagsbústaðir hafa umsjón með rekstri félagslegra leiguíbúða fyrir einstaklinga og fjölskyldur undir ákveðnum tekjumörkum, og einnig fyrir aldraða og fatlaða.

Samkvæmt lögum um ársreikninga ber að nota sömu matsaðferðir við gerð samstæðureikninga og móðurfélagið notast við í ársreikningi sínum, sem er í þessu tilfelli Reykjavíkurborg. „Ef félag sem færa skal í B-hluta sveitarfélags beitir öðrum matsaðferðum í eigin ársreikningi en samstæðureikningur sveitarfélagsins byggir á, ber að vinna ný reikningsskil fyrir félagið, þar sem matsaðferðir eru í samræmi við reikningsskil samstæðureikningsins,“ segir áliti nefndarinnar.

Það er þó sérstaklega tekið fram í álitinu að Reykjavíkurborg sé heimilt, en ekki skylt, að taka ársreikning Félagsbústaða óbreyttan inn í samstæðureikning borgarinnar. Það er þó háð þeirri forsendu að starfsemi Félagsbústaða sé skilgreind á sviði fjárfestinga í fjárfestingafasteignum. Í lögum um ársreikninga er hugtakið fjárfestingaeign skilgreind sem „fasteign, land, bygging eða hluti byggingar, sem ætluð er til öflunar tekna, svo sem til útleigu eða í öðru ágóðaskyni, en ekki til notkunar í rekstri félags við framleiðslu, vörslu vörubirgða, þjónustu í rekstri félagsins, í stjórnunarlegum tilgangi eða til sölu í hefðbundnum rekstrartilgangi.“

Sé litið á ársreikning Félagsbústaða fyrir árið 2019, kemur fram að kostnaðarverð fjárfestingaeigna félagsins var tæplega 40 milljarðar króna við lok þess árs. Gangvirði þeirra er hins vegar ríflega 92 milljarðar króna. „Það skiptir ekki máli hvort fasteignirnar eru taldar vera fjárfestingafasteignir af stjórn Félagsbústaða, heldur hver tilgangur borgarinnar er með því að eiga félagslegar íbúðir. Matshækkun fjárfestingafasteigna Félagsbústaða nam 52 milljörðum við árslok 2019. Ef þessar eignir væru teknar inn í samstæðureikning á kostnaðarverði, eru áhrifin því um 52 milljarðar króna til lækkunar á eigin fé samstæðureiknings Reykjavíkurborgar,“ segir Einar í samtali við Fréttablaðið.

Samkvæmt samstæðureikningi Reykjavíkurborgar fyrir árið 2019 var eiginfjárhlutfall borgarinnar um 50 prósent og eigið fé um 344 milljarðar króna. Væru eignir Félagsbústaða færðar á kostnaðarverði, eins og venjan er við bókfærslu fasteigna innan A-hluta borgarsjóðs, myndi eiginfjárhlutfall borgarinnar því lækka í ríflega 42 prósent.