Eigið fé félags í eigu Steins Loga Björnssonar, fyrrverandi forstjóra Bláflugs, jókst úr 248 milljónum króna árið 2019 í 1,2 milljarða króna árið 2020. Aukningin nemur 979 milljónum króna.

Fram hefur komið í fjölmiðlum að Avia Solutions Group hafi keypt Bláfugl í fyrra. Rock Holding, sem er í eigu Steins Loga, átti 50 prósent hlut í fraktflugfélaginu. Steinn Logi keypti Bláfugl ásamt móðurfélagi Atlanta árið 2014 af Íslandsbanka.

„Stóra verk­efnið er að stöðva ta­prekst­ur­inn, sem við reikn­um með að tak­ist á ár­inu, og leita svo leiða til að vaxa,“ sagði hann í viðtali við Morgunblaðið skömmu eftir að kaupin gengu í gegn.

Steinn Logi var forstjóri Bláfugls á árunum 2014 til 2020, forstjóri Skipta á árunum 2011 til 2013 sem þá var móðurfélag Símans, forstjóri Húsasmiðjunnar 2005 til 2010 og stjórnandi hjá Icelandair um árabil.

Rock Holding hagnaðist um 979 milljónir króna árið 2020 en tapaði 830 þúsund krónum árið áður. Mestu munar að þáttur í ársreikningum sem ber nafnið aðrir fjármagnsliðir var jákvæður um einn milljarð króna.

Eignir félagsins námu rúmlega 1,2 milljörðum króna árið 2020 samanborið við 248 milljónir árið áður. Rock Holding skuldaði tengdum aðila átta milljónir í fyrra samanborið við tæplega 43 milljónir króna árið áður.

Félagið átti verðbréf fyrir 604 milljónir króna árið 2020 samanborið við 125 milljónir króna árið áður, handbært fé nam 279 milljónum króna í fyrra samanborið við tæplega tólf milljónir króna árið áður og aðrar skammtímakröfur og fyrirframgreiddur kostnaður töldu 252 milljónir króna í fyrra samanborið við 53 milljónir árið áður.

Jafnframt var bókfært virði eignarhluta í öðrum félögum 78 milljónir króna árið 2020 og var liðurinn óbreyttur á milli ára. Auk þess voru fasteignir bókfærðar á 22,5 milljónir króna árið 2020 sem var lítillega lægri fjárhæð en árið áður.