Eigið fé fjárfestingarfélagsins Eyris Invest, sem er meðal annars stærsti hluthafi Marels með tæplega fjórðungshlut, var rétt ríflega 765 milljónir evra, eða sem nemur 114 milljörðum króna við árslok 2020.

Þetta kemur fram í nýjum ársreikningi Eyris, sem var lagður fyrir aðalfund félagsins fyrr í þessum mánuði.

Hagnaður af rekstri Eyris nam 93,3 milljónum evra á síðasta ári, samanborið við 326,8 milljónir evra árið 2019. Samdrátt í hagnaði milli ára má rekja til 66 prósenta gengishækkunar Marels á árinu 2019. Hlutabréfaverð Marels hækkaði hins vegar um liðlega 25 prósent á síðasta ári.

Verðbréfaeign félagsins eykst milli ára um 25 milljónir evra og nam við árslok um einum milljarði evra, eða 150 milljörðum króna. Vaxtaberandi skuldir félagsins voru um 260 milljónir evra og eiginfjárhlutfall félagsins því um 74 prósent. Langstærsta eign Eyris Invest er eignarhlutur þess í hátæknifyrirtækinu Marel, sem skráð er á markað á Íslandi og í Hollandi.

Á árinu 2019 samdi Eyrir Invest við bandaríska bankann Citibank um fjármögnun á hluta af eignum þess, fyrir alls 50 milljónir evra. Í skýrslu stjórnar í nýjasta ársreikningi félagsins kemur fram að lánssamningurinn við Citibank hafi verið hækkaður í 110 milljónir evra.

Kjörin sem fjárfestingarfélaginu bauðst hafi verið mun betri en eru í boði á innlendum fjármagnsmarkaði auk þess sem geta Citibank til að styðja við frekari fjárfestingar Eyris Invest sé mikil. Með lántökunni hafi því verið dregið úr endurfjármögnunaráhættu félagsins og geta til frekari fjárfestingar aukist.

Auk eignarhlutarins í Marel fer Eyrir Invest með 46,5 prósenta hlut í samlagshlutafélaginu Eyrir Sprotar, sem einbeitir sér að fjárfestingu og stuðningi við efnileg sprota- og vaxtarfélög með áherslu á alþjóðlegan vöxt. Á árinu 2020 keypti Eyrir Invest nýja hluti í Eyri Sprotum fyrir 1,6 milljónir evra.

Þá er félagið Eyrir Ventures að fullu í eigu Eyris Invest en það fjárfestir í væntanlegum sprota- og vaxtar­fyrirtækjum. Á árinu 2020 keypti Eyrir nýja hluti í Eyri Ventures fyrir 33 milljónir evra.

Stærstu eigendur Eyris Invest eru feðgarnir Þórður Magnússon, stjórnarformaður félagsins, og Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marels, en þeir fara samanlagt með nærri 39 prósenta hlut. Aðrir helstu hluthafar Eyris Invest, sem var stofnað árið 2000, eru Landsbankinn, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins og Lífeyrissjóður verslunarmanna.