Matvælafyrirtækið Lýsi og fjárfestingafélag á vegum aðaleigenda Lýsis hafa bæst við hluthafahóp Þórsmerkur, eiganda Árvakurs, sem er útgáfufélag Morgunblaðsins og tengdra miðla. Félögin tvö fara nú með rúmlega 10 prósenta hlut í Þórsmörk.

Hlutafé Þórsmerkur var aukið um 300 milljónir króna að nafnvirði í maí eins og greint var frá í Markaðinum. Samkvæmt upplýsingum á vef fjölmiðlanefndar, sem voru uppfærðar 17. júlí, hafa tvö félög bæst við hluthafahópinn.

Annars vegar er Lýsi komið með 2,76 prósenta hlut og hins vegar er Í fjárfestingar ehf., sem er í jafnri eigu Katrínar Pétursdóttir og Gunnlaugs Sævars Gunnlaugssonar, komið með 7,72 prósenta hlut. Eignarhlutur félaganna tveggja nemur því 10,48 prósentum.

Katrín hefur setið í stjórn Árvakurs um árabil og verið forstjóri Lýsis frá árinu 1999. Hún á 64 prósenta hlut í Lýsi samkvæmt fyrirtækjaskrá. Gunnlaugur Sævar, stjórnarformaður Lýsis og Ísfélags Vestmannaeyja, er næststærsti hluthafinn í Lýsi.

Eignarhlutur félaga sem tengjast Guðbjörgu M. Matthíasdóttur, aðaleiganda Ísfélags Vestmannaeyja, og Kaupfélagi Skagfirðinga (KS) breyttist lítið í hlutafjáraukningu Þórsmerkur.

Hlutur Ísfélagsins lækkaði úr 13,4 prósentum í rétt tæplega 9 prósent en á móti jókst hlutur Hlyns A, sem er félag Guðbjargar M. Matthíasdóttur, aðaleiganda Ísfélagsins, úr 16,45 prósentum í 18,49 prósent.

Íslenskar sjávarafurðir, dótturfélag KS, fer með 19,45 prósenta hlut en félagið var áður með slétt 20 prósent. Þrátt fyrir að eignarhlutur félagsins hafi minnkað lítillega er það orðinn stærsti hluthafi Þórsmerkur þar sem hlutur Ramses II, félags Eyþórs Laxdal Arnalds, sem var áður stærsti hluthafinn, minnkaði úr 20,05 prósentum í 13,41 prósent.

Þá jókst hlutur útgerðarfélagsins Ramma úr 6,14 prósentum í 6,87 prósent, og hlutur Legalis, félags Sigurbjörns Magnússonar, jókst úr 12,37 prósentum í 13,9 prósent.

Eignarhlutur annarra smærri hluthafa, svo sem Stálskips og Þingeyjar, minnkaði við hlutafjáraukninguna.

Hluthafar Þórsmerkur:

  • Íslenskar sjávarafurðir - 19,45%
  • Hlynur A - 18,49%
  • Legalis - 13,9%
  • Ramses II - 13,41%
  • Ísfélag Vestmannaeyja - 8,99%
  • Í fjárfestingar - 7,72%
  • Rammi - 6,87%
  • Lýsi - 2,76%
  • Þingey - 2,40%
  • Stálskip - 2,06%
  • Brekkuhvarf - 2,05%
  • Fari - 1,03%
  • Hraðfrystihúsið - Gunnvör - 0,87%