Eigendur Inter Milan leita nú logandi ljósi að fjárfestum til að koma inn í hluthafahóp Inter Milan. Að því er Financial Times greinir frá þarf að minnsta kosti um 200 milljónir dollara, eða 26 milljarða íslenskra króna, til að rétta við fjárhag félagsins. Tekjur Inter Milan hafa dregist mikið saman í heimsfaraldrinum, en félagið hefur eytt háum fjárhæðum í leikmenn frá því að núverandi eigendur tóku við rekstrinum.

Aðaleigandi Inter Milan er kínverska fjárfestingafélagið Suning Holdings, sem hefur haldið á tæplega 70 prósenta hlut í félaginu síðan 2016. Suning Holdings er næststærsta fyrirtæki Kína sem er í eigu óbreytts borgara, en kínverska ríkið er afar umfangsmikið í atvinnulífinu þar í landi. Suning Holdings byggðist upp á smásöluverslun, en á síðustu árum hefur það útvíkkað starfsemi sína, meðal annars með fjárfestingum í íþróttafélögum.

Suning Holdings er sjálft í skuldavanda í heimalandinu og þarf að greiða sem nemur 1,2 milljörðum dollara til baka í afborganir á þessu ári, eða sem samsvarar um 156 milljörðum íslenskra króna. Umræður við fjárfestingafélagið BC Partners um fjárfestingu í Inter Milan höfðu staðið yfir um nokkurra mánaða skeið, en ekki náðist samstaða um verðlagningu og því hefur Suning leitað á náðir annarra fjárfesta á síðustu dögum, að því er kemur fram hjá Financial Times. Goldman Sachs hefur jafnframt verið Suning til ráðgjafar í ferlinu.

Bæði kemur til greina að selja félagið í heild sinni eða að hluta. Eigendur Inter Milan verðmeta félagið á um 1080 milljónir dollara, á meðan þeir fjárfestar sem hafa sýnt Inter Milan áhuga meta verðmætið nær 900 milljónum dollara.

Inter Milan er sagt þurfa verulega innspýtingu fjár svo það geti tekið þátt í næsta keppnistímabili á Ítalíu og í Evrópukeppnum. Því er haldið fram í Financial Times að núverandi eigandi félagsins geti stutt rekstur þess út þetta ár. Jafnframt er talið að Suning vilji helst selja hlut í Inter Milan, jafnvel með tapi, frekar en að láta knattspyrnufélagið verða gjaldþrota.

Suning keypti 70 prósent hlut í Inter Milan á ríflega 320 milljónir dollara árið 2016. Félagið hefur svo eytt um það bil öðru eins í leikmannakaup síðan þá.