Hluthafar FoodCo annars vegar og Gleðipinna hins vegar eiga sameinað félag, sem tók nýverið til starfa í kjölfar samþykkis Samkeppniseftirlitsins, til helminga, samkvæmt upplýsingum Markaðarins.

Samkeppniseftirlitið lagði sem kunnugt er blessun sína yfir sameiningu FoodCo og Gleðipinna í byrjun mánaðarins en sameinað félag verður rekið undir nafni Gleðipinna.

Veitingastaðirnir sem tilheyra sameinuðu félagi eru Hamborgarafabrikkan, Saffran, Keiluhöllin, Shake&Pizza, American Style, Blackbox, Roadhouse, Eldsmiðjan, Aktu Taktu, Pítan og Kaffivagninn.

Eigendur FoodCo fara í kjölfar sameiningarinnar með helming hlutafjár í sameinu félagi, samkvæmt upplýsingum Markaðarins, en þannig fara feðgarnir Jóhann Örn Þórarinsson og Þórarinn Ragnarsson með 21,25 prósenta hlut hvor og Bjarni Stefán Gunnarsson heldur á 7,5 prósenta hlut.

Þá fer félag á vegum Guðmundar Auðunssonar og Guðríðar Maríu Jóhannesdóttur með 28,35 prósenta hlut í sameinuðu félagi og er þannig stærsti hluthafi þess og Jóhannes Ásbjörnsson fer með 21,65 prósent.

Fram kom í samrunaskrá FoodCo og Gleðipinna til Samkeppniseftirlitsins á sínum tíma að markmið sameiningarinnar væri að ná fram hagræðingu í rekstri beggja félaga, bregðast við samkeppni, sporna við versnandi afkomu og stuðla að auknu starfsöryggi starfsmanna. Hjá sameinuðu félagi starfa um sjö hundruð manns á alls 26 veitingastöðum