Greiningarfyrirtækið Jakobsson Capital hefur hækkað verðmat sitt á fasteignafélaginu Reitum um tvö prósent. Verðmatið var um 65,4 milljarðar samanborið við 64 milljarða við gerð síðasta verðmats og verðmatsgengið hækkar úr rúmlega 82 krónum upp í rúmar 84 krónur. Verðmatsgengið er því um 30 prósentum yfir markaðsgengi.

„Útlit er fyrir litlar sviptingar í verðmatsgengi fasteignafélaganna. Ljóst er að það mun valda mörgum vonbrigðum. Samt sem áður eru fasteignafélögin þau félög á markaði sem eru hvað vanmetnust,“ segir í verðmatinu.

Greinandi Jakobsson Capital segir ljóst að afkoma Reita árið 2021 velti mjög á viðsnúningi í ferðaþjónustu og bendir á að 19 prósentum af eignum félagsins hafi verið ráðstafað til hótelreksturs og um 5 prósent af skrifstofuhúsnæði félagsins í útleigu til Icelandair.

Rekstraráætlun fyrir Reiti er töluvert dekkri nú en fyrri rekstrar­áætlun. Meginástæða þess er að það er gert ráð fyrir að viðsnúningur í ferðaþjónustu verði seinna en í eldri spá og verði örlítið hægari. Þannig muni verða kröftugur viðsnúningur milli áranna 2021 og 2022. Rekstrarhagnaður (NOI) Reita mun aukast um 500 milljónir króna að raunvirði og leigutekjur verða nærri þær sömu að raunvirði og fyrir COVID.

Árleg endurskoðun á fjármagnskostnaði leiddi ekki til þeirrar lækkunar á fjármagnskostnaði sem greinandi reiknaði með. Fjármögnun Reita er töluvert hagstæðari en um áramótin og er lánsfjárkostnaður 3,04 prósent en var 3,24 prósent.

„Á móti kemur að áhættuálag á fasteignafélög hefur hækkað mikið á erlendum mörkuðum,“ segir í verðmatinu. Ávöxtunarkrafa til eigin fjár er nú 8,92 prósent en var 7,99 prósent og hækkar um nærri 1 prósentustig. Veginn fjármagnskostnaður er því óbreyttur.