Egill mun hafa umsjón með tæknilegum lausnum félagsins á sviði jarðhita og annarra orkugjafa til viðskiptavina þess um allan heim. Þá mun Egill stýra þekkingarsetri Arctic Green Energy á Íslandi. Innan þess eru nokkrir af helstu sérfræðingum alþjóðajarðhitageirans, m.a.: Dr. Guðni A Jóhannesson fyrrum Orkumálastjóri, Dr. Ólafur Flóvenz, fyrrum forstjóri Íslenskra orkurannsókna (ÍSOR), Dr. Páll Valdimarsson, prófessor og fyrirlesari á sviði jarðhita og hitaveitukerfa við stofnanir víða um heim og Grímur Björnsson, jarðeðlis- og forðafræðingur með yfir 35 ára reynslu í greiningum á jarðvarmaauðlindum.

Dr. Egill Júlíusson kemur til Arctic Green Energy frá Landsvirkjun þar sem hann gegndi stöðu nýsköpunarstjóra og yfirforðafræðings. Þar hóf hann störf árið 2012 og hefur sinnt ýmsum verkefnum, m.a. líkanagerð, gagnastýringu, gufuöflun, uppbyggingu auðlindagarða og þróun nýrra aðferða við nýtingu jarðvarmaauðlinda.

Egill er með BSc. gráðu í vélaverkfræði frá Háskóla Íslanda, MSc. og PhD. gráður í jarðvarmaauðlindaverkfræði frá Stanford háskóla. Hann er einnig aðjúnkt við Háskólann í Reykjavík.

Arctic Green Energy (www.arcticgreen.com) er leiðandi fyrirtæki á sviði endurnýjanlegrar orku. Það sérhæfir sig í lausnum sem byggja á jarðvarma til hitunar, kælingar og til raforkuframleiðslu. Fyrirtækið er að víkka út starfsemi sína með samþættingu jarðvarma við aðra endurnýjanlega orkugjafa og hefur tekið þátt í að koma á fót námi á háskólastigi til að þjálfa nýjar kynslóðir af jarðhitasérfræðingum. Félagið er með höfuðstöðvar í Singapore og starfsemi í Kína og Evrópu. Arctic Green Energy á rætur í hinum alþjóðlega viðurkennda jarðhitageira á Íslandi og starfrækir þekkingasetur þar.