Eggert Þór Kristófersson hefur sagt upp sem forstjóri Festi. Fyrirtækið rekur meðal annars Krónuna, N1 og Elko.

Í tilkynningu frá Festi kemur fram að samkomulag hafi verið gert um starfslok hans og að Eggert hafi þótt æskilegt á þessum tímamótum eftir mikla uppbyggingu að nýr leiðtogi tæki við.

Eggert hóf störf hjá Festi, sem þá var N1, í júní 2011 sem fjármálastjóri eftir nauðasamning sem var gert maí það ár. Félagið var skráð í kauphöll í lok árs 2013. Félagið keypti svo gamla festi árið 2018 sem innihélt ELKO, Krónuna, Festi fasteignir og Bakkann vöruhótel.

Festi rekur Elko.

„Ég hef verið lánssamur að vinna með frábæru samstarfsfólki á þessum árum sem hafa gert Festi og dótturfélög af því sem þau er í dag. Ég mun sakna þess að vinna með þessu fólki en er einnig spenntur fyrir því sem framtíðin ber í skauti sér,“ segir Eggert.

Guðjón Reynisson, stjórnarformaður Festi, segir Eggert hafi leitt fyrirtækið í gegnum mikið vaxtar- og samþættingartímabil og skili nú af sér traustu fyrirtæki sem sé vel í stakk búið til að takast á við stór verkefni í orkuskiptum í framtíðinni.

„Ég óska Eggerti velfarnaðar við þau verkefni sem hann mun nú snúa sér að og þakka gott samstarf á liðnum árum,“ segir Guðjón.