Ríkis­sátta­semjari hefur á­kveðið að leggja fram miðlunar­til­lögu í kjara­deilu Eflingar og SA. Aðal­steinn Leifs­son ríkis­sátta­semjari segir að þetta sé eina verk­færið sem hann eigi eftir.

Þetta felur það í sér að fé­lags­menn Eflingar og Sam­taka at­vinnu­lífsins munu þurfa að ganga til at­kvæða­greiðslu um miðlunar­til­lögu. Segir Aðal­steinn að með þessu sé verið að taka deiluna af samninga­borðinu og leggja samning í dóm fé­lags­manna Eflingar.

Samkvæmt miðlunartillögunni munu félagsmenn Eflingar fá sömu launahækkanir og samið var um við SGS og sömu afturvirku hækkanir frá 1. nóvember.

Gert er ráð fyrir því að gengið verði til at­kvæða­greiðslu um miðlunar­til­löguna á mánu­dag. „Ég er á vissan hátt að taka valdið af samninga­nefndunum og færa þau til fé­lags­manna,“ segir Aðal­steinn.

Aðspurður að því hvort hann sé með þessu að hafa afskipti af innanhúsmálum Eflingar segir Aðalsteinn svo alls ekki vera.

„Nú er gjarnan talað um að samningur SA og Starfsgreinasambandsins sé samningur atvinnulífsins, það er ekki þannig,“ segir Aðalsteinn.

Hann segir það hafa verið gríðarlega þungar og erfiðar kjaraviðræður. „Sem leiddi til þessarar niðurstöðu sem síðan 18 félög SGS samþykkja og gefa hæstu hækkanir í prósentu sem samið var um í þessari lotu,“ segir Aðalsteinn.

„Auðvitað er ég að stíga inn. Ég er að stíga inn í deiluna og er að setja þetta á borðið fyrir félagsmennina, þannig þetta er ákveðin aðgerð sem ég geri til þess að reyna að spyrja fólk, viljiði þessa leið eða viljiði halda áfram á þessari vegferð sem mér finnst núna blasa við?“

Lögin skýr

Aðalsteinn segir að hvorki Efling né Samtök atvinnulífsins geti komið í veg fyrir að miðlunartillagan sé lögð fyrir félagsmenn.

„Lögin eru alveg skýr. Ég hef heimild til að leggja fram þessa miðlunartillögu jafnvel þó samningaaðilar séu henni ekki samála og atkvæðagreiðsla skal fara fram. Þannig ég vænti þess að atvkæðagreiðsla fari fram um þessa tillögu á þessum tíma sem ég set hér,“ segir Aðalsteinn en rætt er um að tillagan fari í atkvæðagreiðslu á mánudag.

Teluru að það sé vilji hjá félagsmönnum Eflingar að ganga til saminga?

„Ég veit það ekki. Ég held að ekkert okkar geti svarað því, en félagsmenn Eflingar geta svarað því í þessari kosningu.“

Niðurstaðan bindandi

Aðalsteinn segir aðspurður að atkvæðagreiðslan verði rafræn. Kjörskrá muni ekki koma til ríkissáttasemjara.

„Heldur fer þetta í hendurnar á fyrirtæki sem hefur framkvæmt margar rafrænar kosningar um niðurstöður kosningar. Þannig kjörskráin fer þangað og þau munu framkvæma kosninguna.“

Þýðir þetta að Efling er skyldug til að láta félagsmenn greiða atkvæði?

„Já það þýðir það. Og Samtök atvinnulífsins,“ segir Aðalsteinn sem segir niðurstöðuna bindandi.

„Ef miðlunartillagan er ekki felld, ef hún stendur, þá verður hún ígildi kjarasamnings og er þá bindandi til þess tíma sem hún nær til, 31. janúar 2024. Þá er búið að semja og þá koma til framkvæmda afturvirkar greiðslur.“

Aðalsteinn segir vefsíðu í undirbúningi á vefslóðinni www.satti.is þar sem félagsmenn Eflingar geti farið og nálgast upplýsingar um þau áhrif sem það að samþykkja miðlunartillöguna eða hafna henni mun hafa á kjör þeirra.

„Þau geta séð hvaða áhrif hún hefur og reiknað það út sjálft, þannig að þetta á að vera alveg skýrt fyrir hverjum og einum.“

Fréttin hefur verið uppfærð.