Tómas Kristjánsson, formaður Rafbílasambands Íslands, segir að eftirspurn eftir rafmagnsbílum hafi aukist töluvert á undanförnum misserum og að líkur séu á því að hún haldi áfram að aukast þegar fram líða stundir.

„Það er nóg að rýna í innflutningstölur á rafbílum til að sjá hversu mikil sprenging hefur orðið. Samkvæmt tölum frá Samgöngustofu eru 13.106 rafbílar á skrá hér á landi í dag. Á árinu 2018 voru 800 rafbílar fluttir inn, ári seinna voru þeir 1.100, árið 2020 voru þeir 2.600 og á síðasta ári voru það 4.300 rafbílar,“ segir Tómas og bætir við að eftirspurn eftir rafbílum muni koma til með að aukast enn frekar.

„Við höfum áætlað eftirspurn eftir rafbílum til ársins 2030 og er sú spá algjörlega í anda þessa veldis­vaxtar sem hefur verið undanfarin þrjú ár. Miðað við okkar áætlanir munu á árinu 2026 verða fluttir inn 13.000 rafbílar sem er stjarnfræðileg tala miðað við hver staðan var á markaðnum fyrir þremur árum síðan.“

Úlfar Steindórsson, forstjóri Toyota, segir að líklegt sé að áhugi á fjölbreyttum kostum í orkugjöfum eigi enn eftir að aukast og að bílaframleiðendur keppist við að svara þessum áhuga.

Úlfar Steindórsson, forstjóri Toyota.

„Við eigum enn eftir að sjá fjölbreytnina aukast og enn eru áhugaverðir kostir sem bíða frekari þróunar. Má þar sérstaklega nefna nýtingu vetnis sem ætti að henta okkur Íslendingum vel,“ segir Úlfar og bætir við að eftirspurn eftir rafbílum hafi verið fyrir hendi um nokkurra ára skeið. „Úrval hefur aukist mikið og kröfur til rafbíla hafa aukist. Rafbílar henta vel vegna lágs raforkuverðs en það sem helst vinnur á móti þeim er kalt loftslag og skortur á innviðum.“
Tómas segir að biðtíminn eftir rafbílum geti verið nokkrir mánuðir og að hún sé lengri en eftir hefðbundnum eldsneytisbílum.

„Í kjölfar Covid urðu framleiðsluhnökrar og það hefur haft áhrif á framleiðslu á bílum um allan heim. Það kom alveg jafnmikið niður á rafbílum og eldsneytisbílum en það eru lengri biðlistar eftir rafbílum en eldsneytisbílum. Það hefur með það að gera að nú orðið er eftirspurnin eftir rafbílum orðin svo miklu meiri.“

Úlfar segir að vegna skorts á innviðum finni fyrirtækið fyrir auknum áhuga á plug-in bílum.

„Við erum að fá til okkar rafmagnsbíla í hverjum mánuði, Lexus UX og Toyota Proace sendibílinn. Við munum síðan kynna fyrsta rafmagnsjepplinginn, BZ4X, frá Toyota í sumar og hefur hann selst vel í forsölu. Fyrstu bílarnir verða afhentir um leið og við kynnum bílinn en búast má við að það taki fram á haust að afgreiða bílana sem þegar hafa verið pantaðir af viðskiptavinum.“

Tómas segir að bílaframleiðendur séu bundnir af Evrópureglugerð sem kveður á um að heildarútblástur frá bílum sem þeir framleiða megi ekki fara yfir 95 grömm á hvern kílómetra.

„Þannig að ef þeir framleiða bíl sem mengar meira en 95 grömm þá verða þeir að framleiða rafbíla í hlutfalli við það. Það gerir það líka að verkum að bílaframleiðendur framleiða meira af rafbílum en þeir hafa gert hingað til. En það er náttúrulega ekki eina ástæðan fyrir aukningu í framleiðslu rafbíla, önnur er að eftirspurnin eftir rafbílum í Evrópu er sífellt að aukast.“