„Ef forsendur Póst- og fjarskiptastofnunar eru rangar verða leikreglurnar skakkar,“ segir Jón Ríkharð Kristjánsson, framkvæmdastjóri Mílu, um markaðsgreiningu Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS), sem er grundvöllur fyrir reglusetningu um fjarskiptainnviði.

Drög að markaðsgreiningu eru nú til umsagnar en í þeim tekur stofnunin þá afstöðu að ennþá sé til staðar staðganga milli kopar- og ljósleiðaraneta. Staðganga þýðir að verð þjónustunnar sé sá þáttur sem ræður mestu um val neytenda á internetþjónustuveitanda. Næst á eftir komi gæði þjónustu þjónustuveitandans og í þriðja sæti sé hraði. Þetta bendir til þess að mismunandi möguleikar á hraða í kopar og ljósleiðaratengingum sé ekki mjög afgerandi þáttur þegar kemur að vali neytenda.

„Ég held að það séu flestir sammála um að nánast enginn neytandi muni flytja sig af ljósleiðara yfir á kopar ef tenging á ljósleiðara hækkar um 10 prósent, það er að segja, einhverja hundraðkalla. Þetta er samt lykilforsenda staðgöngu. Póst- og fjarskiptastofnun er að segja að mismunandi hraði í kopar- og ljósleiðaratengingum sé ekki afgerandi þáttur þegar kemur að vali neytenda. Það er ekki sá raunveruleiki sem við þekkjum.“

Með því að skilgreina ljósleiðara- og kopartengingar þannig að staðganga sé þeirra á milli verður markaðsstaða Mílu sterkari í augum Póst- og fjarskiptastofnunar. Þannig getur stofnunin réttlætt frekari kvaðir á uppbyggingu Mílu, sem á og rekur helstu fjarskiptainnviði landsins, að sögn Jóns Ríkharðs.

„Afstaða stofnunarinnar vekur óhjákvæmilega upp tvær spurningar. Annars vegar hvort ljósleiðaravæðing sé óþörf þar sem kopartengingar eru fyrir. Og hins vegar hvort hægt sé að leysa internetmál þéttbýlisstaða úti á landi með lægra verði til endanotenda á tengingum yfir kopar. Að mati Mílu er þetta ekki í neinu samræmi við áherslur sveitarstjórna, stefnu stjórnvalda, markaðssetningu fjarskiptafélaga og vilja neytenda.“

„Ég hef áhyggjur af því að þetta muni tefja uppbyggingu úti á landi þar sem ekki er búið að leggja ljósleiðara, enda verða reglurnar og kvaðirnar þyngstar þar.“

Í fyrri drögum að markaðsgreiningu hafði PFS lagt til víðtækari kvaðir á Mílu en í kjölfarið sagði Jón Ríkharð í viðtali við Markaðinn að kvaðirnar myndu leiða til þess að dregið yrði úr fjárfestingum í innviðum úti á landi. Jón segir að stofnunin hafi dregið til baka flestar þær tillögur sem voru óþarflega íþyngjandi en eftir standi þó skilgreining PFS á staðgöngu og því fylgja kvaðir sem ekki er rétt forsenda fyrir.

„Það er nauðsynlegt að vera með réttar forsendur á markaði svo hann virki eðlilega og í samræmi við þær aðferðir sem liggja að baki. Ef lykilforsendur eru rangar virkar markaðurinn ekki rétt. Svo er bara spurning hverjar afleiðingarnar verða. Ég hef áhyggjur af því að þetta muni tefja uppbyggingu úti á landi þar sem ekki er búið að leggja ljósleiðara, enda verða reglurnar og kvaðirnar þyngstar þar.“