Miklar breytingar verða á regluverki fjármálamarkaða á næstu árum til að bregðast við aukningu í UFS-flokkun fjárfestinga. Fjármálaeftirlit Seðlabankans hefur takmarkaðar heimildir til að koma í veg fyrir grænþvott fjárfestinga og skortur er á viðurkenndri skilgreiningu á grænum skuldabréfum. Þetta segir Unnur Gunnarsdóttir, varaseðlabankastjóri fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands, í samtali við Markaðinn.

„Takmarkaðar lagaheimildir eru til þess eins og staðan er í dag,“ segir Unnur, spurð hvernig fjármálaeftirlitið geti komið í veg fyrir grænþvott fjárfestinga, þ.e.a.s. að fjárfestingar séu flokkaðar með UFS-þáttum án þess að mikið sé á bak við flokkunina.

„Ef um villandi upplýsingagjöf er að ræða getur fjármálaeftirlitið þó nýtt heimildir í lögum um eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti,“ bætir hún við.

Ekki eru skýr ákvæði í íslenskum lögum sem kveða á um UFS-fjárfestingar, sem fela í sér að tekið sé tillit til umhverfis- og samfélagsþátta, auk góðra stjórnarhátta. Þó er kveðið á um að lífeyrissjóðir skuli setja sér siðferðisleg viðmið í fjárfestingum. Margir lífeyrissjóðir hafa innleitt UFS-sjónarmið við fjárfestingar til að svara kalli um aukna ábyrgð í umhverfis- og samfélagsmálum og bætta stjórnarhætti. Flestir þeirra hafa stuðst við heimsmarkmið og viðmið Sameinuðu þjóðanna.

„Eitt af meginmarkmiðum fyrirhugaðrar regluumgjarðar, er að draga úr hættunni á grænþvotti.“

Spurð hvort hætta sé á grænþvotti miðað við núverandi löggjöf segir Unnur að svo sé.

„Til að mynda vantar samræmda skilgreiningu á grænum skuldabréfum, sem er viðurkennd af stjórnvöldum. Eitt af meginmarkmiðum fyrirhugaðrar regluumgjarðar, er að draga úr hættunni á grænþvotti og er flokkunarkerfið sem innleitt verður með Taxonomy-reglugerðinni hluti af þeirri umgjörð,“ segir Unnur. Samræming flokkunar sé forsenda þess að hægt sé að framfylgja kröfum varðandi UFS.

„Svokölluð flokkunarfræði (taxonomy) sem unnin hefur verið af sérfræðingum á vettvangi Framkvæmdastjórnar ESB miðar að því að samræma hvernig þessar fjárfestingar eru flokkaðar og metnar,“ segir Unnur. Stefnt er að því að ákvæði Taxonomy-reglugerðarinnar er varða umhverfisþætti, taki gildi í lok árs 2021 og önnur ákvæði hennar ári síðar.

Hefur fjármálaeftirlitið haft afskipti af fyrirtækjum, stofnunum eða einstaklingum vegna UFS-flokkunar?

„Þar sem ekki eru skýr ákvæði sem kveða á um UFS-fjárfestingar í innlendri löggjöf eru heimildir eftirlitsins takmarkaðar að þessu leyti og því hefur það ekki gripið til aðgerða,“ segir Unnur, en hún bætir við að fjármálaeftirlitið hafi þó gert athugun á beitingu siðferðislegra viðmiða við fjárfestingaákvarðanir lífeyrissjóða síðastliðið haust.

„Niðurstöðurnar voru þær að slík beiting væri ekki langt á veg komin og aðferðafræðin enn í mótun. Líklegt er að fram undan séu breytingar á regluverki lífeyrissjóða, í átt að beitingu UFS-þátta og þeir endurspegli þannig þá þróun sem á sér stað á evrópskum lífeyrismarkaði,“ segir Unnur.

Þá nefnir Unnur að við árlegt áhættumat eftirlitsskyldra aðila, er fylgni við eigin stefnu metin sem hluti af mati á stjórnarháttum. „Í þeim tilvikum þar sem félag hefur sett sér stefnu um ábyrgar fjárfestingar og UFS-þætti, væri það því hluti af áhættumati eftirlitsins að meta hvernig stefnunum er fylgt.“

Veigamiklar breytingar

Unnur segir að gera megi ráð fyrir að stefnumörkun framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (Green deal) í umhverfismálum muni hafa áhrif á allt regluverk á fjármálamarkaði og veigamiklar breytingar á tilskipunum og reglugerðum séu í farvatninu.

„Evrópusambandið hefur til að mynda innleitt kröfur um UFS í tilskipun um starfstengda lífeyrissjóði. Þótt íslenskir lífeyrissjóðir teljist ekki til starfstengdra lífeyrissjóða, er talið viðeigandi að hafa hliðsjón af EES-löggjöfinni þar sem það á við,“ segir Unnur. Í tilskipuninni er lögð áhersla á mikilvægi UFS-þátta við mótun fjárfestingastefnu og áhættustýringu sjóðanna.

„Ætlast er til þess að sjóðirnir geti gert eftirlitsaðilum grein fyrir með hvaða hætti UFS-þættir eru teknir inn í fjárfestingarferli og áhættustýringu. Einnig er lögð áhersla á almenna upplýsingagjöf um mikilvægi UFS-þátta við fjárfestinga­ákvarðanir og áhættu þeim tengda,“ segir Unnur.

Útgáfa grænna skuldabréfa hefur aukist á undanförnum misserum.
Fréttablaðið/Ernir

Seint á síðasta ári var samþykkt reglugerð ESB um upplýsingagjöf varðandi sjálfbærar fjárfestingar á fjármálamarkaði, sem gildir um alla aðila á fjármálamarkaði og gerir kröfur um að þeir birti á heimasíðu sinni hvernig þeir taka tillit til sjálfbærrar áhættu í áhættustýringu sinni og meta áhrif á sjálfbæra þætti. Reglugerðin mun taka gildi innan Evrópu 10. mars 2021 og verða tekin inn í EES-samninginn.

Þá segir Unnur fyrirséð að gerð verði krafa um að fjármálafyrirtæki og vátryggingafélög þurfi að taka tillit til UFS-þátta í áhættustýringu og við álagspróf. Litið enn lengra inn í framtíðina sé áætlað að UFS-þættir verði hafðir til hliðsjónar í árlegu innra mati á eiginfjárþörf fjármálafyrirtækja (ICAAP) og eigin áhættu- og gjaldþolsmati vátryggingafélaga (ORSA) sem og inn í eftirlitsferlið (SREP/SRP).

Tímaramminn 3-5 ár

Þær breytingar sem eru efstar á baugi eru kröfur um upplýsingagjöf og fjárfestingaráðgjöf varðandi UFS-þætti fjármála- og vátryggingaafurða sem hafa þann tilgang að gera neytendum og fjárfestum kleift að taka upplýstar ákvarðanir við val á afurðum. Þessar breytingar verða m.a. innleiddar hér á landi með afleiddum gerðum IDD-tilskipunarinnar (Insurance Distribution Directive) sem og innleiðingu á PRIIPs-reglugerðinni (Packaged Retail and Insurance-based Investment Products Regulation) og MiFID II-regluverkinu (Markets in Financial Instruments Directive). Þá nefnir Unnur einnig ákvæði Benchmark-reglugerðarinnar varðandi vísitölur sem hafa UFS-þætti til hliðsjónar.

Spurð hvenær megi búast við því að nýjar reglur sem varða UFS taki gildi á Íslandi segir Unnur að að áætlaður tímarammi sé næstu 3-5 ár.

„Í þessu samhengi verður einnig að líta til þess að þó að gerðirnar taki gildi í Evrópu þarf að innleiða þær í íslenska löggjöf og því er Ísland að jafnaði aðeins á eftir Evrópusambandsríkjunum,“ segir Unnur. Þó megi reikna með að UFS-ákvæði muni sjást í innlendri löggjöf á næstu misserum með innleiðingu á IDD, MiFID og PRIIP.