Eftirlaunasjóður Félags íslenskra atvinnuflugmanna (EFÍA) tók þátt í hlutafjárútboði Icelandair Group og skilaði í dag inn tilboði fyrir 450 milljónir króna. Nemur það um einu prósenti af eignasafni sjóðsins.

Þetta kemur fram í tölvupósti EFÍA til félagsmanna og staðfestir Snædís Ögn Flosadóttir, framkvæmdastjóri sjóðsins, þetta í samtali við Fréttablaðið. FÍA er stéttarfélag flugmanna hjá Icelandair.

„Það er mat stjórnar EFÍA að í tilfelli Icelandair séu væntingar um ávöxtun og framtíðarhorfur félagsins slíkar að þess virði sé að taka þá áhættu sem engum dylst að fylgi fjárfestingu í félaginu á þessum tímum,“ segir í skeytinu til félagsmanna.

Segist stjórnin meðal annars hafa stuðst við greiningarvinnu eignastýringar Arion banka, álit áhættustjóra sjóðsins, mat greiningaraðilanna IFS ráðgjafar og Jakobsson Capital og mat á mögulegum neikvæðum og jákvæðum áhrifum mismunandi sviðsmynda á tryggingafræðilega stöðu sjóðsins.

Auka verulega við hlut sinn

„Með þessari fjárfestingu er EFÍA að auka verulega við beinan eignarhlut sinn í félaginu á sama tíma og þess er gætt að fjárfestingin sé innan þeirra marka sem eðlileg geta talist að teknu tilliti til stærðar sjóðsins, markaðshlutdeildar Icelandair að loknu útboði og fyrri álíka fjárfestinga sjóðsins,“ segir jafnframt í tilkynningunni.

Rúmlega 1000 sjóðsfélagar eru í EFÍA og má ætla út frá fregnum dagsins að stærð sjóðsins sé í kringum 45 milljarðar. Sjóðurinn er opinn öllum félagsmönnum FÍA.

Fréttin hefur verið uppfærð.