Stjórn og lykilstjórnendur innan samstæðu Icelandair Group keyptu hlutabréf í nýafstöðnu útboði félagsins fyrir samtals 93,7 milljónir króna. Forstjórinn keypti mest allra.

Í tilkynningu sem barst frá Icelandair rétt eftir miðnætti kom fram að umframeftirspurn frá fagfjárfestum og almennum fjárfestum í útboðinu hefði numið 85 prósentum frá. Um þúsund starfsmenn tóku þátt í útboðinu.

Lykilstjórnendur Icelandair Group keyptu hlutabréf fyrir samtals 76 milljónir króna. Þar af keypti Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group fyrir 17,5 milljónir, Birna Ósk Einarsdóttir, framkvæmdastjóri sölu- og þjónustusviðs, fyrir 12 milljónir, Eva Sóley Guðbjörnsdóttir fjármálastjóri fyrir 16 milljónir, Elísabet Helgadóttir, framkvæmdastjóri mannauðssviðs, fyrir 8 milljónir, Jens Þórðarson, framkvæmdastjóri framleiðslusviðs, fyrir 6 milljónir og Tómas Ingason, framkvæmdastjóri upplýsingasviðs og viðskiptaþróunar, fyrir 6 milljónir.

Þá keyptu Árni Hermannsson, framkvæmdastjóri Loftleiða Icelandic, bréf fyrir 6 milljónir og Gunnar Már Sigurfinnsson, framkvæmdastjóri Icelandair Cargo, fyrir 4,5 milljónir.

Stjórn Icelandair Group keypti bréf fyrir 17,7 milljónir króna. Stjórnformaðurinn Úlfar Steindórsson keypti fyrir 5 milljónir, Svava Grönfeldt fyrir 10 milljónir og John F Thomas fyrir 2,7 milljónir.

Tilboði bandarísku athafnakonunnar Michele Roosevelt Edwards Ballarin upp á sjö milljarða króna sem hún skilaði inn í hlutafjárútboði Icelandair Group í gær var hafnað af stjórn flugfélagisns. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins gat Ballarin ekki reitt fram nægjanlegar tryggingar til staðfestingar á því að hún væri með fjármagn á lausu til að geta staðið við kaupin.

Greint var frá því í fréttum í gær að Ballarin, sem hefur haft hug á því að stofna flugfélag á Íslandi eftir að hún keypti eignir WOW air af þrotabúi félagsins, hefði sett fram skuldbinandi tilboð í útboði félagsins og að hún hefði væntingar um að halda á fjórðungshlut í Icelandair eftir kaupin. Af því verður hins vegar ekki.