„Það liggur í augum uppi að efnahagsreikningar Lykils og Kviku smellpassa. Þetta er hið fullkomna hagsmunahjónaband,“ segir Snorri Jakobsson, greinandi hjá Jakobsson Capital.

„Annars vegar ertu með efnahagsreikning Kviku banka sem hefur of mikla skammtímafjármögnun á breytilegum vöxtum. Þeir eru í vandræðum með að koma fjármagni í arðbæran farveg. Hins vegar ertu með Lykil sem er með mikið ójafnvægi í efnahagsreikningi sínum og vantar einmitt það sem Kvika hefur, það er að segja, skammtímafjármögnun á breytilegum vöxtum.“

Á mánudagskvöldið upplýstu TM og Kvika banki að hefja ætti viðræður um sameiningu félaganna á þeim forsendum að hluthafar TM fengju 55 prósenta hlut í sameinuðu félagi. Samruninn myndar sjötta stærsta félagið í Kauphöllinni með markaðsvirði upp á 48 milljarða króna miðað við gengið í gær. Sameinað félag verður því álíka stórt og smásölufyrirtækið Festi.

Kvika hafði hækkað um 6,7 prósent þegar markaðurinn lokaði í gær og TM um 4,6 prósent. Mikil viðskipti voru með bréf Kviku, alls 1.300 milljónir króna, og þar á meðal voru stök viðskipti upp á 550 milljónir króna.

Sigurður Viðarsson, forstjóri TM, segir að langstærsta tækifærið felist í hagstæðari fjármagnskostnaði. „Það er ekkert launungarmál að Lykill hefur verið með frekar óhagkvæma fjármögnun sem er í formi markaðsfjármögnunar og lánalína,“ segir Sigurður og bendir á að Kvika sé aftur á móti með innlán og mun lægri fjármagnskostnað. Með sameiningu náist veruleg samlegð.

Marinó Örn Tryggvason, forstjóri Kviku banka, og Sigurður Viðarsson, forstjóri TM:
Samsett mynd

Marinó Örn Tryggvason, forstjóri Kviku banka, nefnir einnig að samlegðaráhrifin náist fram með því að sameina Lykil og þá útlánastarfsemi sem fyrir er í Kviku banka. „Þar eru til staðar innviðir og aukin tækifæri til að vaxa enn frekar og ná fram betri fjármögnun á markaði,“ segir Marinó. Hann á ekki von á því að samruninn leiði til mikillar fækkunar á starfsfólki.

„Það kæmi mér verulega á óvart ef hluthafar myndu ekki taka vel í samruna.“

„Stóru tölurnar í samlegðaráhrifunum liggja ekki þar,“ útskýrir Marinó, enda sé í grunninn ekki mikil samlegð fólgin í því að sameina tryggingarekstur og bankastarfsemi. „Með því að bæta við tryggingastarfseminni er hins vegar ljóst að markhópur Kviku banka verður stærri og við getum farið að keppa við bankana í fleiri verkefnum en áður.“

Aðspurður segir Marinó að ekki hafi verið rætt um hvernig yfirstjórn sameinaðs félags verði skipuð. Þá væntir hann þess að niðurstaða viðræðna liggi fyrir eftir fjórar til sex vikur en hann telur yfirgnæfandi líkur á því að samruninn nái fram að ganga. „Það kæmi mér verulega á óvart ef hluthafar myndu ekki taka vel í samruna sem felur í sér eins mikla samlegð og við væntum,“ segir Marinó.

Eins og greint var frá í Markaðinum hafnaði Kvika banki skriflegri beiðni stjórnenda TM undir lok júní um að hefja formlegar sameiningarviðræður. Þær áttu, samkvæmt tillögum TM, meðal annars að grundvallast á þeim skilmálum að tryggingafélagið yrði metið á nokkuð hærra verði en fjárfestingabankinn við mögulegan samruna félaganna. Stjórn Kviku taldi hins vegar engar forsendur til að hefja formlegar viðræður á þeim grunni.

Skiptihlutföllin hafa batnað lítillega miðað við þær tillögur að samrunaviðræðum sem TM lagði fram í sumar. Það helgast af því að markaðsvirði Kviku hefur hækkað meira á tímabilinu en markaðsvirði TM.

Stjórn Kviku kom saman til fundar á mánudagsmorgni þar sem samþykkt var að leggja fram skriflegt til boð til TM síðar þann dag um viðræður um sameiningu. Eftir því sem Markaðurinn kemst næst var aðdragandinn frekar skammur en dagana á undan höfðu átt sér stað óformleg samtöl milli stjórnarmanna í TM og Kviku og eins stærstu hluthafa tryggingafélagsins. Stjórn TM mun hafa komið saman seinnipart mánudags og samþykkt tillögur Kviku um viðræður. Sigurður Hannesson er stjórnarformaður Kviku en Örvar Kjærnested stjórnarformaður TM.

Spara tíma og peninga

Kaup TM á Lykli gengu endanlega í gegn í byrjun ársins en yfirlýst áform tryggingafélagsins höfðu verið að sækjast eftir viðskiptabankaleyfi fyrir Lykil þannig að félagið, sem hefur að stærstum hluta verið að bjóða upp á fjármögnun bíla og atvinnutækja, gæti byrjað að bjóða upp á innlán.

„Við erum að stytta okkur leið í átt að því að fjölga tekjulindum og skjóta fleiri stoðum undir rekstur sameinaðs félags og þannig draga úr hagsveifluáhrifum. Kvika er uppsettur viðskiptabanki með markaðsviðskipti, fyrirtækjaráðgjöf og stóra eignarstýringarstarfsemi sem hefur skilað góðri arðsemi,“ segir Sigurður hjá TM.

Lykill hefur hins vegar ekki enn fengið viðskiptabankaleyfi. Spurður hvort ferlið að því að gera Lykil að viðskiptabanka hafi verið flóknara en gert hafði verið ráð fyrir segir Sigurður að svarið sé bæði já og nei. „Lykill var kominn mjög langt í ferlinu en það eru alls konar hlutir sem eru bæði dýrir og tímafrekir, til dæmis tengingar við Reiknistofu bankanna. Við erum með þessu að stytta okkur leið og spara kostnað.“

Þá segir Sigurður að fyrirkomulagið sem viðræðurnar byggjast á, það er að TM verði dótturfélag Kviku banka og að Lykill renni inn í Kviku, sé betur til þess fallið að ná fram hagræðingu í fjármagnskostnaði heldur en það sem TM lagði upp með eftir kaupin á Lykli. Fyrirhugað var að TM yrði eignarhaldsfélag yfir tveimur dótturfélögum; einu utan um tryggingar og öðru utan um fjármögnun.