Heimsfaraldur kórónuveiru hefur haft alvarlegar efnahagslegar afleiðingar á Íslandi og reynst bæði langvinnari og erfiðari viðureignar en búist var við í upphafi. Eftir að áhrifa faraldursins tók að gæta á Íslandi varð snarpur samdráttur í efnahagsumsvifum og við blasti hrun í ákveðnum atvinnugreinum og djúp efnahagskreppa. Frá þessu er greint í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar en um er að ræða þriðju skýrslu embættisins vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins fyrir íslenskt samfélag. Í þriðju skýrslunni voru tekin fyrir ríkisfjármál.
Í ályktunum Ríkisendurskoðunar við skýrsluna kemur fram að þau hafi áður bent á að áður en faraldurinn skall á var afkoma af rekstri ríkissjóðs farin að dragast saman, að hluta vegna tekjusamdráttar en fyrst og fremst vegna aukinna útgjalda. Þau undirstrika að mikil áskorun bíður stjórnvalda á komandi árum við að draga úr hallarekstri og greiða niður skuldir til að endurheimta jafnvægi í efnahagsmálum.
Áformað er að styðja við íslenskt efnahagslíf í gegnum faraldurinn með hallarekstri, fjármögnuðum með lántökum. Komi til hækkunar á fjármögnunarkostnaði ríkisins getur vaxtabyrði ríkissjóðs fljótt takmarkað svigrúm til annarra útgjalda. Neikvæð gengisþróun og hækkandi skuldir geta þannig haft miklar afleiðingar fyrir afkomu ríkissjóðs á komandi árum, sérstaklega ef lánskjör kynnu að versna.
Ríkisendurskoðun telur að leita verði alla leiða áfram til hagræðingar og aukinnar skilvirkni á útgjaldahlið ríkisfjármálanna samhliða mótvægisaðgerðum til stuðnings heimilum og fyrirtækjum.
Þau segja að þó svo að efnahagsúrræði stjórnvalda séu hugsuð sem tímabundnar ráðstafanir verði að huga að því að þanþol ríkissjóðs er takmörkunum háð þegar fram í sækir.
„Ríkisendurskoðun áréttar að gæta verður festu og ábyrgðar í ríkisfjármálunum á komandi misserum til að tryggja ríkissjóði sjálfum viðspyrnu og sjálfbærni þegar efnahagslífið getur tekið við sér á ný,“ segir í ályktun embættisins.
Afleiðingar efnahagsáfallsins hafa fyrst og fremst birst í versnandi afkomu fjölda fyrirtækja og stórauknu atvinnuleysi
Alvarleg áhrif fyrir ferðaþjónustu
Í skýrslunni kemur fram að áhrifin hafa verið sérstaklega alvarleg fyrir ferðaþjónustuna og greinar tengdar henni. Þar segir þó að í greininni hafi verið blikur á lofti fyrir eftir samdrátt á árinu 2019 með fækkun ferðamanna
„Afleiðingar efnahagsáfallsins hafa fyrst og fremst birst í versnandi afkomu fjölda fyrirtækja og stórauknu atvinnuleysi. Mikil óvissa ríkir um framvindu faraldursins, jafnt á Íslandi sem og á alþjóðavísu, og erfitt er að segja til um hvenær viðspyrna fæst og efnahagslífið getur farið að taka við sér,“ segir í tilkynningu embættisins um skýrsluna.
Hallarekstur og skuldahlutfall hins opinbera munu verða töluvert umfram
Í skýrslunni kemur einnig fram að víkja hefur þurft frá gildandi fjármálastefnu vegna þess forsendubrests sem faraldurinn hefur leitt af sér og munu því hallarekstur og skuldahlutfall hins opinber verða töluvert umfram það sem heimild er fyrir í lögum og ljóst sé að ekki verði hægt að uppfylla markmið um jákvæðan heildarjöfnuð á tímabilinu 2020 til 2022.
Ríkisendurskoðun segir að stjórnvöld hafi brugðist við faraldrinum með því að beita opinberum fjármálum af fullum þunga til að vega á móti hagsveiflu. Ekki hefur verið dregið úr þrátt fyrir tekjurýrnun hins opinbera. Því stefni í að ríkissjóður verði rekinn með rúmlega 270 milljarða króna halla á árinu 2020 og um 264 milljarða króna halla á árinu 2021. Þannig gæti samanlagður halli í ár og á næsta ári orðið yfir 530 milljarðar króna.
Fyrir faraldurinn var afkoma ríkissjóðs versnandi og kemur fram að á árinu 2019, áður en kórónuveirufaraldurinn kom til sögunnar, var ríkissjóður rekinn með 42,3 milljarða króna afgangi og 84,4 milljarða króna afgangi árið 2018. Þar vegir þungt áhrif af rekstri dóttur- og hlutdeildarfélaga.
Í skýrslunni er farið yfir hinar ýmsu mótvægisaðgerðir sem yfirvöld hafa gripið til. Sumar sem áttu að vera tímabundnar en hafa dregist á landinn og jafnvel verið útvíkkaðar.
Fjármögnun ríkissjóðs frá því að faraldurinn skall á er að mestu leyti lánsfé af innlendum markaði. Þá er sagt frá því að 1. apríl 2020 gerði fjármála- og efnahagsráðuneytið lánasamning við ÍL-sjóð (áður Íbúðalánasjóður). Í samningnum felst að ríkissjóður tekur að láni alla fjármuni sem ÍL-sjóður leggur inn á reikning ríkissjóðs í Seðlabanka Íslands. Lánasamningurinn er ótímabundinn og er gagnkvæmur uppsagnarfrestur 15 dagar. Dregið var á þessa lánalínu í lok nóvember 2020 þegar skýrsla þessi var í lokavinnslu og 80 milljarðar greiddir af ÍL-sjóði inn á bankareikning ríkissjóðs.

Tekjufall ríkisaðila og óvissa um horfur
Þá er fjallað um þau neikvæðu áhrif sem að faraldurinn hefur haft á rekstur margra opinberra fyrirtækja á árinu og eru talin upp Isavia, RÚV og Íslandspóstur. Segir að þrátt fyrir að þau hafi eftir föngum leitast við að bregðast við faraldrinum með niðurskurði og hagræðingaraðgerðum í rekstri á eftir að koma í ljós hvaða áhrif tekjufall þeirra muni hafa á ríkissjóð.
Isavia hafi þegar fengið 4 milljarð króna. í nýtt hlutafé á þessu ári en telur sig þurfa 12-18 milljarða til viðbótar á næstu tveimur árum til að standa undir nauðsynlegum fjárfestingum svo tryggja megi viðspyrnu í starfsemi félagsins og samkeppnishæfa innviði til næstu ára. Þá segir að auk ríkisbankanna geti hugsanlega komið til þess að ríkisaðilar eins og Byggðastofnun, Húsnæðissjóður og ÍL-sjóður verði fyrir skakkaföllum vegna tapaðra útlána af völdum kórónuveirufaraldursins og áhrifa hans á íslenskt efnahagslíf.