Gunnar Úlfarsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs, segir að efnahagsleg frammistaða Íslands sé það helsta sem haldi aftur af okkur þegar kemur að samkeppnishæfni.

Viðskiptaráð kynnti niðurstöður úttektar IMD viðskiptaháskólans í Sviss á samkeppnishæfni ríkja á fundi í síðustu viku. Niðurstaða úttektarinnar er sú að Ísland bætir stöðu sína og færist upp um fimm sæti, úr 21. sæti í 16 sæti. Fyrir um áratug síðan raðaði Ísland sér í 26. sæti og hefur því samkeppnisstaða Íslands batnað hægt og bítandi.

Gunnar Úlfarsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs.
Aðsend mynd.

„Við erum að standa okkur vel á ýmsum sviðum. Við erum í 14. sæti þegar kemur að skilvirkni hins opinbera og 8. sæti hvað varðar skilvirkni atvinnulífs. Síðan erum við einnig í 8. sæti í flokknum félagslegir innviðir. En þegar kemur að efnahagslegri frammistöðu erum við í 56. sæti,“ segir Gunnar og bætir við að það sé eini flokkurinn sem við bætum okkur ekki í á milli ára.

„Í samanburði við aðrar þjóðir stöndum við okkur hvað lakast í alþjóðaviðskiptum og alþjóðlegri fjárfestingu. Þó við séum að bæta okkur í þeim þáttum og alþjóðaviðskipti til að mynda að aukast þá erum við ekki að bæta okkur nóg í samanburði við aðrar þjóðir.“

Ísland er eftirbátur Norðurlandanna hvað varðar samkeppnishæfni en þau raða sér í efstu 10 sætin meðan við erum í því sextánda. Að sögn Gunnars hefur Ísland alla burði til að hífa sig upp í topp tíu sætin. Ekki megi gleyma því hversu mikilvæg samkeppnishæfni er og því eigum við að setja markið hátt. „Samkeppnishæfni varðar alla og er í raun forsenda bættra lífskjara. Við sjáum það í samantekt IMD að samkeppnishæf ríki búa frekar við meiri landsframleiðslu, meiri félagslegar framfarir, betri lífskjör og aukna hamingju.“

„Þegar kemur að erlendu fjárfestingunni er mikilvægt að stækka hlutabréfamarkaðinn og dýpka hann. Það er til dæmis hægt að gera með því að gera einstaklingum sjálfum kleift að ráðstafa viðbótarlífeyrissparnaði og innleiða skattalega hvata til hlutabréfakaupa."

Úttekt IMD viðskiptaháskólans á samkeppnishæfni er sú umfangsmesta í heiminum á þessu sviði en 63 ríki eru hluti af henni. Hún hefur verið framkvæmd í rúm 30 ár og Ísland verið hluti af henni frá 1997.Gunnar segir að þó hægt sé að vera ánægð með frammistöðu Íslands ættum við að stefna hærra. Við getum gert ýmislegt til að stuðla að meiri samkeppnishæfni.

„Hér á landi er fyrirstaða fyrir erlenda fjárfestingu og eigum við að reyna að draga úr þeirri fyrirstöðu. Þegar kemur að erlendu fjárfestingunni er mikilvægt að stækka hlutabréfamarkaðinn og dýpka hann. Það er til dæmis hægt að gera með því að gera einstaklingum sjálfum kleift að ráðstafa viðbótarlífeyrissparnaði og innleiða skattalega hvata til hlutabréfakaupa. Einnig er ýmislegt sem aðilar á markaði geta gert.“

Gunnar bætir við að Ísland standi vel að vígi á nokkrum sviðum er varða samkeppnishæfni.

„Skilvirkni atvinnulífsins hefur til að mynda tekið miklum framförum. Við erum í 1. sæti þegar kemur að viðhorfi og gildismati bæði stjórnenda og þeirra sem starfa hjá fyrirtækjunum. Við erum framúrskarandi á þeim mælikvarða. Síðan erum við í 2. sæti þegar kemur að stjórnarháttum fyrirtækja sem er mjög jákvætt. En í öllum þáttunum er það vinnumarkaðurinn sem er dragbítur skilvirkni atvinnulífsins.“

Flokkun FTSE hafi mikla þýðingu

Gunnar segir að það að FTSE færi okkur upp í flokk nýmarkaðsríkja hafi mikla þýðingu fyrir okkar stöðu.

„Í máli Magnúsar Harðarsonar, forstjóra Kauphallarinnar, kom fram að ekki væri til formlegt mat á hversu mikið innflæði erlends fjármagns kæmi í kjölfarið á þessum flokkum í gegnum vísitölusjóði sem miða sig við FTSE en gróflegt mat sé að það sé um 50 milljarðar. Síðan mun þessi flokkun að öllum líkindum auka áhuga erlendra fjárfesta á fjárfestingum hér á landi.“