Eymdarvísitalan, sem er samtala verðbólgu og atvinnuleysis, er um helmingi lægri en þegar hún náði sínu hæsta gildi eftir fjármálahrunið.

Eymdarvísitalan er einfaldur og gagnsær mælikvarði, sem rekja má til hagfræðingsins Arthur Okun, á því hvernig hinn almenni borgari hefur það í efnahagslegu tilliti.

Vísitalan stóð í 13 prósentum í mars síðastliðnum en til samanburðar fór vísitalan hæst í 27 prósent í febrúar 2009.

„Það kemur svolítið á óvart að munurinn sé svo mikill en það helgast að einhverju leyti af því að áhrif faraldursins á hagkerfið hafa ekki reynst jafn alvarleg og talið var í fyrstu,“ segir Konráð S. Guðjónsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs Íslands.

eymd.PNG

Vísitalan hefur verið gagnrýnd fyrir að vera of einfaldur mælikvarði á efnahagslega eymd, en þeirri gagnrýni hefur verið svarað með því að gefa atvinnuleysi meira vægi. Í tilfelli Íslands þyrfti þó að breyta hlutföllunum mjög mikið til að vísitalan í yfirstandandi niðursveiflu kæmi verr út en hún gerði í fjármálakreppunni.

„Það sem þessi vísitala lýsir þó ef til vill best er þær stóru áskoranir sem hagstjórnin stendur frammi fyrir og í hversu þröngri stöðu hagstjórnin er,“ segir Konráð.

„Nú fer verðbólga vaxandi og atvinnuleysi er enn hátt, sem birtist í háu gildi vísitölunnar. Það gefur til kynna að vaxtaákvarðanir á næstunni gætu verið snúnar fyrir peningastefnunefnd Seðlabankans, sem þarf að halda verðbólgu í skefjum á sama tíma og hún má ekki standa í vegi fyrir efnahagsbatanum.