Frávik hagvísisins frá miðgildinu 100 er hins vegar orðið það mikið að í sögulegu ljósi er óvíst hversu mikið hann hækkar áfram. Einnig er áhyggjuefni að þrír mikilvægir undirliðir lækka frá í maí, þar á meðal. væntingavísitala Gallup og debetkortavelta.

Þrír af sex undirliðum hækka frá í maí en stærsta framlag til hækkunar er vegna fjölgunar ferðamanna, þá meiri vöruinnflutnings og aukins fiskafla. Þrátt fyrir sterkar jákvæðar vísbendingar er óvissa tengd ferðaþjónustu, stríðinu í Úkraínu og framgangi COVID-19 farsóttarinnar. Framvindan á fjármálamarkaði er einnig meðal óvissuþátta vegna verðbólgu og aðgerða ýmissa seðlabanka í þá veru að minnka peningalega þenslu.

Hagvísirinn hjá Analytica er vísitala sem gefur vísbendingu um vendipunkta í efnahagsumsvifum að sex mánuðum liðnum. Hlutverk vísitölunnar er að veita skýra sýn á efnahagshorfur og vara tímanlega við viðsnúningi í efnahagsumsvifum. Vísitalan er reiknuð á grundvelli sömu aðferðafræði og annars staðar þar sem sambærilegar vísitölur eru reiknaðar en sérstaklega er tekið mið af verklagi OECD.

Leiðandi hagvísir Analytica er samansettur úr sex mismunandi undirþáttum. Um er að ræða aflamagn, debetkortaveltu, ferðamannafjölda, heimsvísitölu hlutabréfa, innflutning og væntingavísitölu Gallup. Í júní hækka fjórir af sex undirþáttum frá fyrra ári. Frá maí fram í júní hækka hins vegar þrír af sex undirþáttum.