„Það var einhver sem sagði að það mætti jafnvel líkja þessum áfanga, að koma íslensku þarna inn, við handritastarfið hans Árna Magnússonar. Það er kannski fulldjúpt í árina tekið, en það er þó alveg öruggt að þetta skiptir gríðarlega miklu máli fyrir framtíð íslenskunnar,“ segir Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri Almannaróms um það að nýjasta útgáfa gervigreindar-mállíkans OpenAI, GPT-4, sem samtalsgreindin ChatGPT byggir á, geti nú svarað á íslensku.

Samstarfið, sem gengur út á að auka færni GPT-4 í íslensku, er afrakstur heimsóknar sendinefndar forseta Íslands með Sam Altman, forstjóra og eins af stofnendum OpenAI, í San Francisco í maí síðastliðnum. Í sendinefndinni voru meðal annarra Lilja Alfreðsdóttir ráðherra, fulltrúar Almannaróms og Miðeindar, auk annarra fulltrúa atvinnulífs og máltæknisamfélagsins á Íslandi.

Þetta er öflugasta gervigreindar-mállíkan í heimi.

Eitt meginmarkmið samstarfsins er að finna leiðir til varðveislu smærri tungumála heimsins, svo tryggja megi að öll tungumál og öll menning eigi sinn stað í stafrænni tækni.

Jóhanna Vigdís segir afar mikilvægt að íslenska sé hluti af þeim tæknilausnum sem við notum daglega.

„Þetta er öflugasta gervigreindar-mállíkan í heimi. Það hefur haft, og mun í enn meiri mæli, hafa mjög mikil áhrif á okkar daglegu athafnir, til dæmis hvernig við lærum og vinnum okkar daglegu störf. Þess vegna skiptir svo miklu máli að hafa íslensku þarna inni, í stað þess að þurfa að nota ensku, því ef við notum ekki tungumálið á öllum sviðum daglegs lífs þá deyr það. Með þessu tryggjum við að tungumálið okkar sé hvoru tveggja nothæft og notað,“ segir Jóhanna Vigdís.

Sendinefndin lykilatriði

Hún segir mjög markvert að hafa náð að komast að hjá Open AI, sem þróar lausnina, og að það hafi aðeins verið möguleiki í kjölfar ferðar sendinefndarinnar sem var farin í maí í fyrra.

Máltæknifyrirtækið Miðeind og sjálfseignarstofnunin Almannarómur byggðu síðan upp samband við lykilfólk hjá fyrirtækinu, og í kjölfarið hóf Miðeind þjálfunarsamstarf með OpenAI, en það gengur út á þjálfun með mannlegri endurgjöf. Undanfarnar vikur hafa því 40 sjálfboðaliðar á vegum Miðeindar og í samstarfi við OpenAI, þjálfað GPT-4 í því að svara betur á íslensku. Samstarfið um virkni íslenskunnar er eitt sex sérstakra þróunarverkefna sem OpenAI stóð að í tengslum við útgáfu GPT-4, en það eina af þeim sem tengist þjóðtungu ríkis.

„Í maí síðastliðnum gátum við bankað upp á hjá stærstu tæknifyrirtækjum heims með hágæða gervigreindar- og máltækniafurðir, þökk sé þeim sérfræðingum sem hafa unnið að framleiðslu þeirra undanfarin ár. GPT-4 gervigreindar-mállíkansins hefur verið beðið með eftirvæntingu og sú staðreynd að OpenAI vinnur sérstaklega með íslenskum aðilum, í því skyni að auka getu þess þegar kemur að íslensku, er stórsigur fyrir íslenska tungu í tæknivæddum heimi,” segir Jóhanna Vigdís, en í heimsókninni var einnig farið á skrifstofur Microsoft, Meta, Amazon og Apple en Jóhanna segir samstarfið við Open AI og Microsoft hingað til hafa skilað mestu.

Framtíðin svarar

„Í upphafi síðasta árs var röddum þeirra Guðrúnar og Gunnars, talgervla sem lesa texta af vefsíðum upphátt á íslensku, bætt inn í Microsoft Edge vafrann raddir. Þessar raddir eru beinar afurðir máltækniáætlunar stjórnvalda og starfs þeirra 60 sérfræðinga sem hafa unnið að máltæknilausnum fyrir íslensku undanfarin ár.“

Næstkomandi mánudag, þann 20. mars kl. 13, stendur menningar- og viðskiptaráðuneytið fyrir kynningarfundi í Grósku undir yfirskriftinni „Framtíðin svarar á íslensku“. Þar verður árangur máltækniáætlunarinnar kynntur, fjallað um næstu skref í stafrænni vegagerð með máltækni og samstarfið við OpenAI kynnt nánar. Þar munu forseti Íslands og menningar- og viðskiptaráðherra fara yfir þann árangur sem máltækniáætlun stjórnvalda hefur skilað, auk pallborðsumræðna en meðal þátttakenda í þeim verða Anna Adeola Makanju, yfirmaður opinberrar stefnumótunar hjá OpenAI, Angela Jiang, vörustjóri hjá OpenAI, og Vilhjálmur Þorsteinsson, framkvæmdastjóri og stofnandi Miðeindar.

„Við munum fara yfir það þar hvað þetta þýðir,“ segir Jóhanna Vigdís að lokum.