Sviss­neska flug­fé­lagið Edelweiss hefur á­kveðið að hefja flug til Akur­eyrar næsta sumar. Flogið verður milli Zürich í Sviss og Akur­eyrar á föstu­dögum frá 7. júlí til 18. ágúst og verða ferðirnar fram og til baka sjö talsins.

Þetta er í fyrsta sinn sem flug­fé­lagið Edelweiss flýgur til Akur­eyrar en það hefur flogið á­ætlunar­flug milli Sviss og Kefla­víkur­flug­vallar síðan 2021.

Edelweiss segir að Ís­land sé einn vin­sælasti á­fanga­staður ferða­langa frá Sviss. Fé­lagið hafi eflt flug­leiðina frá Sviss til Kefla­víkur­flug­vallar á síðustu tveimur árum og hafi orðið vart við á­huga ferða­fólks á að fara um allt Ís­land. Sér­stakur á­hugi væri á að skoða náttúruna á Norður­landi.

Sig­rún Björk Jakobs­dóttir, fram­kvæmda­stjóri Isavia Innan­lands­flug­valla segir það mikið á­nægju­efni að flug­fé­lagið Edelweiss hafi á­kveði að hefja flug til Akur­eyrar.

„Þetta er af­rakstur þess öfluga kynningar­starfs sem Isavia Innan­lands­flug­vellir, Ís­lands­stofa, Markaðs­stofa Norður­lands og Austur­brú hafa unnið í þéttu sam­starfi þar sem á­herslan hefur verið á að kynna nýjar gáttir til Ís­lands. Auk alls þessa hefur að­koma ís­lenskra stjórn­valda skipt sköpum. Edelweiss bætist nú í hóp með Niceair og þýska flug­fé­laginu Condor sem fljúga milli Akur­eyrar og á­fanga­staða er­lendis. Condor flýgur jafn­framt milli Frankfurt og Egils­staða næsta sumar,“ segir Sig­rún.