Edda Blumenstein hefur verið ráðin framkvæmdastjóri framþróunar verslunar og viðskiptavina hjá BYKO.

Um er að ræða nýtt svið hjá BYKO þar sem áhersla verður lögð á heildarupplifun viðskiptavina (Omni Channel), nýta stafræn tækifæri og vinna að langtíma vexti og leiðandi stöðu fyrirtækisins á markaði í takt við framtíðarsýn.

Edda er doktor frá Leeds University Business School í Omnichannel Retail Transformation, með meistaragráðu frá Leeds University Design School og B.Sc gráðu í alþjóða markaðsfræði frá HR. Edda stofnaði ráðgjafafyrirtækið beOmni sem hefur aðstoðað íslensk verslunarfyrirtæki í Omnichannel stefnumótun og hefur einnig stýrt Rannsóknarsetri verslunarinnar síðustu mánuði.

Edda hefur haldið fjölda fyrirlestra og námskeiða um heildarupplifun viðskiptavina í verslun og skrifað kennsluefni fyrir alþjóðlegt vef-fræðslufyrirtæki. Hún var áður framkvæmdastjóri Smáratívolís, deildarstjóri markaðs og viðskiptaþróunar Icepharma og vörumerkjastjóri Coca-Cola Íslandi.

Edda er einnig stjórnarformaður stafræns faghóps innan Samtaka verslunar og þjónustu. Edda er gift Árna Inga Pjeturssyni, framkvæmdastjóra Nike Team í Bretlandi, og eiga þau 4 börn á aldrinum 4 til 19 ára.